Dagur Gautason ((Julien Kammerer / DPPI via AFP)
Vinstri hornamaðurinn, Dagur Gautason hefur gert tveggja ára samning við norska félagið Arendal og leikur því á nýjan leik með því eftir hálfs árs dvöl í Frakklandi hjá stórliði Montpellier. Dagur hefur verið félagslaus í allt sumar og var á tímabili orðaður við heimkomu í KA. Handkastið heyrði í Degi á dögunum og spurði hann út í félagaskiptin til Arendal, tímann hjá Montpellier en fyrst og síðast; Var hann nálægt því að ganga í raðir KA? ,,Ég útilokaði aldrei neitt. Mér þykir mjög vænt um KA og fólkið í kringum klúbbinn og ég er mjög þakklátur fyrir effortið og viljann sem þau settu í að fá mig heim. Markmiðið var hinsvegar alltaf að vera áfram úti svo að tímapunkturinn var ekki réttur akkurat núna," sagði Dagur sem er spenntur fyrir því að fara aftur til Arendal og leika í norsku úrvalsdeildinni en á sama tíma að það sé mikill léttir að vera loks kominn aftur á samning hjá félagi. ,,Þetta leggst bara vel í mig. Það er mikill léttir að vera loksins kominn með lið. Markaðurinn fyrir vinstri hornamenn er lítill og það er ekkert hlaupið að því að finna lið svona seint. Flest lið voru búin að setja saman sína hópa fyrir næsta vetur svo markmiðið er bara að halda áfram þar sem var horfið með Arendal og komast svo vonandi aftur í eina af stærstu deildunum." Hann segir að tími sinn hjá Montpellier hafi verið bæði skemmtilegur og lærdómsríkur. ,,Það var ekki auðvelt að koma inn með svona stuttum fyrirvara á miðju tímabili en þetta var frábær reynsla og mikið sem maður fékk að upplifa, eins og að verða franskur bikarmeistari og fara í úrslit Evrópudeildarinnar," sagði Dagur en Montpellier er eitt af sterkari liðum Evrópu. Dagur var fenginn til félagsins á hálfs ár samning eftir að sænski landsliðsmaðurinn, Lucas Pellas meiddist. ,,Það voru bæði hæðir og lægðir á þessum tíma en ég er mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri og ég geng sáttur frá þessu," sagði Dagur sem gerði tveggja ára samning við Arendal með með klásúlu um að geta rift samningi sínum eftir eitt ár.Útilokaði aldrei heimkomu í KA
Fékk að upplifa mikið
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.