Óli Brim er samningslaus. ((Eyjólfur Garðarsson)
Ólafur Brim Stefánsson hefur verið á faraldsfæti undanfarin ár eftir að hafa spilað með Gróttu í tvö tímabil, 2020-2022 í Olís-deildinni hefur hann leikið með fjórum félögum á stuttum tíma. Í dag er Ólafur samningslaus eftir að hafa rift samningi sínum við Hörð frá Ísafirði en hann lék með liðinu á síðustu leiktíð. Þar áður lék hann eitt tímabil með Fram en gekk síðan aftur í raðir Gróttu en var þar í stuttan tíma áður en hann fór alla leið til Kuwait og lék þar um stund. Ólafur stefndi á að spila í Slóvakíu með Povazska Bystrica á síðustu leiktíð og var fluttur út. Það gekk hinsvegar ekki eftir og flutti Ólafur því aftur til Íslands og lék með Herði í Grill66-deildinni á síðustu leiktíð. ,,Ég er vissulega að skoða næstu skref og er í viðræðum við nokkur erlend félög, en ekkert sem er gengið endanlega í gegn ennþá," sagði Ólafur í samtali við Handkastið en hann segist opinn fyrir því að vera áfram á Íslandi. ,,Ég er í viðræðum og er opinn fyrir góðum tækifærum, bæði hér heima og erlendis. Það hefur verið töluvert meiri áhugi frá liðum erlendis en er að sjálfsögðu opinn fyrir að ræða við lið hér heima einnig," sagði Ólafur Brim Stefánsson að lokum í samtali við Handkastið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.