Darri Aronsson ((Bára Dröfn Kristinsdóttir)
Darri Aronsson er samkvæmt heimildum Handkastsins á leiðinni í Hauka. Darri hefur verið samningsbundinn franska félaginu Ivry síðustu þrjú tímabil en samningur hans við félagið rann út fyrr í sumar. Darri gekk til liðs við franska félagið Ivry sumarið 2022 en ótrúleg meiðslasaga hefur komið í veg fyrir að hann hafi náð sér á flug í Frakklandi. Hefur Darri þurft að gangast undir fjórar aðgerðir frá því að hann fór til Frakklands. Darri greinist með álagsbrot í ristinni skömmu áður en hann hélt út til Frakklands sumarið 2022. Það brot var síðan rangt greint af læknum úti í Frakklandi. Handkastið heyrði í Darra og spurði hann út í meiðslasöguna, stöðuna á meiðslunum og framhaldinu hjá sér. ,,Ég byrja því að æfa of snemma og brýt ristina aftur í upphitun á fyrstu æfingunni minni eftir að hafa verið frá í þrjá mánuði," sagði Darri sem lýsir þessum tíma sem mjög svo krefjandi tímum. Hann fer því í aðgerð á rist og er frá æfingum og keppni í fjóra mánuði. Á sjö mánuðum hafði hann semsagt ná einni æfingu með liðinu sem hann einmitt ristarbrotnaði á, í upphitun." ,,Ég kem svo til baka og er búin að vera með á þremur æfingum þegar þjálfarinn vill að ég spili næsta leik. Ég var alls ekki tilbúinn í það og trappa mig alltof hratt upp og slít þá hnéskeljarsinina á æfingu daginn fyrir leik." ,,Fer í aðgerð og allt gekk vel þar til að ég er sendur á endurhæfingarmiðstöð í Suður-Frakklandi. Þar er mér bara á góðri íslensku gjörsamlega slátrað. Þar yfir þjálfuðu þeir á mér hnéð og lærið svo illa að ég hef þurft að fara í tvær auka aðgerðir á hnénu og að vinna með Elís (Þór Rafnssyni, sjúkraþjálfara) síðan þá við að laga mistök þeirra. Og nú eru komin tvö ár síðan. Ef það væri ekki fyrir hann Ella og þessa ótrúlega miklu vinnu sem hann hefur lagt í þetta, þá væri ég ekki að koma tilbaka," sagði Darri Aronsson sem stefnir á endurkomu á völlinn í vetur. En hvernig er andlega líða handboltamanns sem hefur ekki getað spila handboltaleik í þrjú ár og varla geta æft handbolta með atvinnumannaliði í nýju landi í allan þennan tíma? ,,Það eru kannski ekki margir sem myndu búast við því en ég hef það bara virkilega gott. Ég er einstaklega heppinn með konu, fjölskyldu og vini. Ég hef einnig gengið í gegnum ýmist mótlæti í gegnum ævina. Ég sleit til að mynda krossband þegar ég var ungur. Það og annað hefur mótað mann og undirbúið mann við það að takast á við hluti eins og þetta," sagði Darri sem segir að það hafi einnig hjálpað mikið að verða faðir síðasta sumar. ,,Hann er mikill gleðigjafi og gefur manni ekki mikinn tíma í að vorkenna sjálfum sér. Síðan er ég líka bara ógeðslega þrjóskur," sagði Darri. ,,Staðan á meiðslunum er virkilega góð eins og er. Ég var byrjaður að mæta í salinn með liðinu fyrir sumarfrí. Það er því loksins farið að styttast í annan enda á þessu," sagði Darri Aronsson í samtali við Handkastið en hann lék síðast keppnisleik í úrslitakeppninni með Haukum vorið 2022. Það eru því liðin rúmlega þrjú ár síðan Darri lék síðast keppnisleik. ,,Stefnan er sett á að koma sterkur til baka á næsta tímabili," sagði Darri sem vildi ekki gefa upp að svo stöddu hvar það yrði. ,,Elli sjúkraþjálfari er virkilega bjartsýnn með framhaldið, sérstaklega eftir seinustu aðgerð og hvernig framþróunin hefur verið á endurhæfingunni undanfarna mánuði. Það stefnir allt í það að ég verði 100 prósent heill í byrjun næsta vetrar. En það er auðvitað ekkert bókað í þessu, eins og maður hefur kannski lært síðustu þrjú ár," sagði Darri að lokum en hann á að baki eitt stórmót með íslenska landsliðinu en hann lék á EM 2022 í Ungverjalandi undir stjórn Guðmundar Þ. Guðmundssonar.Var gjörsamlega slátrað á endurhæfingarstöð
Hefur gengið í gegnum mótlæti áður
Bjartari tímar framundan
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.