Vonast til að fá traustið hjá tvíburabróðir íþróttastjórans
(Eyjólfur Garðarsson)

Guðmundur Bragi Ástþórsson ((Eyjólfur Garðarsson)

Haukamaðurinn, Guðmundur Bragi Ástþórsson gekk á dögunum í raðir TMS Ringsted og skrifaði undir eins árs samning við félagið. Guðmundur gengur í raðir félagsins eftir ársdvöl hjá Bjerringbro-Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni.

Guðmundur segir tilfinninguna frábæra að vera kominn til Ringsted en félagið endaði 10. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

,,Ég er mjög spenntur fyrir tímabilinu. Ég vona að þetta sé gott tækifæri fyrir mig og hlakka til að kynnast liðinu og bænum," sagði Guðmundur í samtali við Handkastið. Hann segir að einhverjir fleiri möguleikar voru á borðinu en honum hafi litist best á Ringsted.

Vildi spila meira

Hann vonast eftir stóru hlutverki í herbúðum Ringsted en hjá félaginu verður einnig fyrrum liðsfélagi hans í íslenska unglingalandsliðinu, Ísak Gústafsson.

,,Vonandi verður hlutverk mitt sem stærst en maður þarf bara að vinna fyrir því geri ég ráð fyrir. Morten Olsen sem ég spilaði með núna í vetur er nýr íþróttastjóri hjá Ringsted og hann heyrði í mér upprunalega um hvort ég hefði áhuga að koma. Svo ég vona að ég fái traustið hja tvíburabróðir hans," en tvíburabróðurinn sem Guðmundur nefnir er Kenneth Olsen þjálfari Ringsted.

En kom það aldrei til greina að vera áfram hjá Bjerringro-Silkeborg?

,,Ég átti góð samskipti allt tímabilið við þjálfarann og stjórnina þar sem ég var bara skýr með það að ég vildi spila meira og taka meiri ábyrð. Það voru allir sammála um að það væri best að ég færi eftir tímabilið og leita annað þar sem þeir eru líka með stór nöfn í hópnum á næsta ári."

,,Tíminn þar var heilt yfir nokkuð góður. Ég lærði hrikalega mikið og þetta var mjög reynsluríkt sem fyrsta tímabil í atvinnumennsku. Okkur kærustunni leið vel í Silkeborg og líkar vel að vera í Danmörku," sagði Guðmundur en kærasta Guðmundar er söngkonan Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir, betur þekkt undir listamannanafninu, Gugusar.

Jöfn og góð deild

Hann segir erfitt að gera sér grein fyrir markmiðum Ringsted fyrir næsta tímabil.

,,Það eru miklar breytingar á liðinu og ég þekki ekki allt of mikið til þeirra. Þeir stóðu sig vel á móti okkur í báðum leikjunum við Bjerringbro á síðasta timabili og gæðin eru mjög góð. Að komast í úrslitakeppnina yrði frábært þar sem þetta er svo hrikalega jöfn og góð deild," sagði Guðmundur Bragi Ástþórsson að lokum í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top