Gott að getað talað við þjálfarann á íslensku
(Egill Bjarni Friðjónsson)

Jóhannes Berg Andrason ((Egill Bjarni Friðjónsson)

Fyrsta tímabilið í atvinnumennsku er handan við hornið hjá örvhentu skyttunni, Jóhannesi Berg Andrasyni sem gekk í sumar í raðir Tvis-Holstebro frá deildarmeisturum FH. Jóhannes Berg sem er alinn upp í Víking verður því lærisveinn, Arnórs Atlasonar hjá Holstebro í dönsku úrvalsdeildinni.

Liðið er byrjað undirbúning fyrir keppnistímabilið og Jóhannes Berg hefur komið sér fyrir í Holstebro.

,,Fyrstu dagarnir hafa bara verið skemmtilegir, æft mikið og af krafti, æfingarnar hafa gengið vel," sagði Jóhannes Berg í samtali við Handkastið. Honum líst vel á liðið og er spenntur fyrir komandi vetri.

,,Það eru gæða leikmenn hérna svo gæðin á æfingum eru góð. Mér líst mjög vel á félagið topp fólk sem starfar hjá félaginu sem er búið að taka vel á móti mér og aðstoðað við hitt og þetta."

Jóhannes segir það hafa verið draum sinn lengi að komast út í atvinnumennsku. Hann hefur verið þolinmóður heima í Olís-deildinni og beðið eftir rétta tækifærinu.

,,Það hefur alltaf verið markmiðið að komast út í atvinnumennsku. Ég fann það bara að nú væri rétti tímapunkturinn að fara út. Maður hefði alveg getað farið fyrr en umhverfið í Krikanum og kúlturinn er mjög góður svo maður var ekkert að hoppa út um leið og maður heyrði fyrst af einhverjum áhuga erlendis frá. Það voru mörg lið sem sýndu áhuga en ég fór ekki i beinar viðræður við mörg lið," sagði Jóhannes sem viðurkennir að önnur félög hafi komið til greina að ganga í raðir en að lokum hafi honum fundist verkefnið hjá Tvis Holstebro henta sér best. En hvert verður hlutverk hans hjá liðinu í vetur?

,,Það er bara barist um tíma á vellinum hérna svo þetta er bara góð og holl samkeppni," sagði Jóhannes sem segir að það hafi spilað inn í ákvörðunina að Arnór Atlason hafi verið að þjálfa liðið.

,,Það er gott að geta leitað til hans á íslensku. Það er töluð danska á æfingum, en það er gott að getað spurt hann og spjallað við hann á íslensku inn á milli.”

,,Það eru rosalega miklar breytingar á liðinu. Níu leikmenn hafa gengið til félagsins og níu leikmenn farið. Þetta er ungt lið og menn eru hungraðir að gera vel og valda usla í deildinni," sagði Jóhannes Berg Andrason að lokum í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top