StjarnanStjarnan (Sævar Jónsson)
Silfurhafar í Powerade-bikar karla frá síðustu leiktíð, Stjarnan tekur þátt í forkeppni Evrópudeildarinnar í lok mánaðarins og í byrjun september þegar liðið mætir rúmenska liðinu, CS Minauer Baia Mare í einvígi um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Fyrri viðureign liðanna fer fram í Rúmeníu, laugardaginn 30. ágúst en sá leikur hefst klukkan 15:00 á íslenskum tíma, eða 18:00 á staðartíma. Þetta staðfesti Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar í samtali við Handkastið. Á sama tíma staðfesti Hrannar að heimaleikur Stjörnunnar sem fer fram viku síðar, fari fram laugardaginn 6.september í Heklu-höllinni í Garðabæ. Sá leikur hefst klukkan 13:00 á íslenskum tíma. Aðspurður út í þann leiktíma segir Hrannar að þar hafi Stjarnan verið að koma til móts við rúmenska liðið sem hyggst ætla nýta sér flug frá Íslandi síðar á laugardeginum. Er þetta í annað sinn á rúmlega ári sem rúmenska liðið kemur til Íslands því liðið lék í undanúrslitum Evrópubikarsins gegn Val vorið 2024. Valur hafði betur úr því einvígi, 66-52 en Valur varð Evrópubikarmeistarar í kjölfarið eftir sigur á grískaliðinu, Olympiacos í vítakastkeppni.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.