Sólveig Lára Kjærnested ((Egill Bjarni Friðiónsson)
Sólveig Lára Kjærnested gæti verið að taka handboltaskóna af hillunni og leikið með ÍR í Olís-deild kvenna á komandi tímabili. Sólveig Lára hætti sem þjálfari kvennaliðs ÍR fyrr í sumar og tók Grétar Áki Andersen við liðinu en Grétar var aðstoðarmaður Sólveigar með ÍR á síðustu leiktíð. Sólveig Lára hefur lagði skóna á hilluna sumarið 2021 eftir 20 ára meistaraflokksferil. Hún lék 19 ár með Stjörnunni og eitt ár erlendis í atvinnumennsku. Það vakti athygli Handkastsins að sjá að Sólveig Lára lék með liði ÍR í gærkvöldi í æfingaleik gegn FH í Skógarselinu sem ÍR vann 35-27. ,,Hún hefur verið að æfa með okkur og spilaði með okkur í gær vegna forfalla í hópnum. Það hefur engin ákvörðun verið tekin með framhaldið," sagði Grétar Áki í samtali við Handkastið sem segist ekki gera ráð fyrir því að Sólveig spili með liðinu í vetur. ,,Eins og staðan er núna þá geri ég ekki ráð fyrir henni. Við erum ekkert að pressa á hana og erum svolítið að leyfa henni bara að stjórna þessu," sagði Grétar Áki. Sólveig er uppalinn í ÍR en fór 15 ára til Stjörnunnar og var þar allan sinn feril að undanteknu einu ári erlendis. Sólveig varð Íslandsmeistari með Stjörnunni í þrisvar sinnum, bikarmeistari í fimm skipti og deildarmeistari í þrjú skipti. Ásamt því tók hún þátt í tveimur Evrópukeppnum með Stjörnunni. Sólveig lék 63 landsleiki með landsliði Íslands og var burðarstólpi í öllum yngri landsliðum Íslands.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.