Hópurinn lítur vel út – Deildin verður krefjandi og skemmtileg
Sævar Jónsson

Sebastian Alexandersson (Sævar Jónsson

Handkastið heyrði í hinum litríka eldhuga, Sebastian Popovic Alexanderssyni, þjálfara meistaraflokks kvenna hjá Víking og fékk hann aðeins til að stikla á stóru úr herbúðum Víkings liðsins og fara aðeins yfir sviðið og það sem framundan er.

Sebastian er að fara inn í sitt annað tímabil með liðið. Í fyrra lenti liðið í 5. sæti með 21 stig í 18 leikjum.

Við gefum Basta orðið:

,,Við byrjuðum að æfa aftur 21. júlí og munum spila a.m.k. fimm æfingaleiki á undirbúningstímabilinu. Hópurinn lítur bara vel út og greinilegt að leikmenn hafa verið duglegir að æfa sjálfir í sumar sem er ánægjulegt fyrir okkur í þjálfarateyminu. Við erum nýbyrjaðar að spila á æfingum og það er mikill spenningur fyrir því að byrja að spila fyrstu æfingaleikina og fá að stilla okkur af fyrir fyrsta leik," sagði Basti.

Hann segir að þónokkrar breytingar hafi verið á liðinu frá því í fyrra og því mikil vinna framundan að setja nýja leikmenn inn í hlutina.

,,Ída Bjarklind og Victoria fóru í Selfoss, Signý Pála fór í Fjölni og svo hafa nokkrar ákveðið að minnka við sig og verða jafnvel ekkert með í vetur. Til okkar komu Hildur Guðjónsdóttir, Sara Björg Davíðsdóttir, Þyrí Erla Sigurðardóttir og Eyrún Ósk Hjartardóttir. Við erum mjög ánægð með þessa viðbót og erum spennt fyrir því að sjá þær í búningi Víkings í vetur."

,,Deildin verður krefjandi og skemmtileg í vetur þar sem Grótta hefur fyrirfram stöðu besta liðsins í deildinni. HK og Afturelding verða í toppnum áfram enda voru bæði lið fyrir ofan okkur í fyrra. FH og Fjölnir ætla sér miklu meira í vetur en í fyrra og þá sérstaklega Fjölnir sem hefur bætt miklu við sig. Svo má ekki gleyma Val2, Fram2 og Haukum2 sem eru alltaf hættulegir andstæðingar. Valur2 endaði jú í 4. sæti í fyrra með aðeins fimm tapleiki og munu því áfram hafa mikil áhrif á deildina, Fram2 verður með gott lið og geta unnið alla á góðum degi og mig grunar að Haukar2 verði miklu sterkari í vetur og munu klárlega vinna fleiri leiki en í fyrra."

Áætlað er að Grill 66 deild kvenna hefjist sunnudaginn 7. september og eiga Víkings stelpur fyrsta leik sinn við Fram2 í Lambhagahöllinni.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top