Rúnar er fyrrum liðsfélagi Kára. (Kristinn Steinn Traustason)
Ríkjandi Íslands- og bikarmeistarinn Rúnar Kárason leikmaður Fram sem lék með ÍBV um tíma og varð Íslandsmeistari með liðinu tímabilið 2022/2023 hefur tjáð sig um mál fyrrum liðsfélaga síns, Kára Kristjáns Kristjánssonar á Facebook-síðu sinni. Þar lýsir hann upplifun sinni á þessu máli sem fjölskylduharmleik og segir það bæði erfitt og leiðinlegt að fylgjast með þessu máli. Hann segist vonast til þess að sjá Kára með merki bandalagsins (ÍBV) á brjóstinu og beri það stoltur hvort sem það verði sem foreldri, þjálfari, stuðningsmaður eða leikmaður. ,,Ég hef einhvern veginn alltaf séð fyrir mér að mæta í stórt partý til Eyja þegar hann Kári myndi hætta að spila, þar yrði fyrri titlum og frábærum stundum hampað og treyja númer 46 dregin upp í rjáfur. Mér finnst Kári vera þannig leikmaður og mér finnst ÍBV vera þannig félag," endaði Rúnar færslu sína á Facebook. Fjallað var um málið í nýjasta þætti Handkastsins þar sem Styrmir Sigurðsson, Einar Ingi Hrafnsson og Davíð Már Kristinsson ræddu um þetta athyglisverða mál. Færslu Rúnars Kárasonar sem birtist á hans eigin Facebook-síðu í dag má lesa hér að neðan: Síðastliðna daga hefur eitt mál mikið verið rætt við mig og í kringum mig. Ég get ekki sagt að ég hafi haft ánægju af því. Því mér þykir þetta leitt. Nú á ég ekkert með það að gera að segja íþróttafélögum hvernig þau eiga að reka sig og ÍBV ber engin skylda til að semja við hann Kára vin minn. En mér finnst persónulega skipta máli að ef ákvörðunin er að láta leiðir skilja af hálfu félagsins, þá á bara að segja það, augnliti til augnlitis sama hversu erfitt eða óþægilegt það samtal er. Mér finnst það morgunljóst að Kári er sá handknattleiksmaður sem kemur frá Eyjum sem hefur náð hvað lengst, er stærsti prófíll handboltans frá Eyjum og ofan á það hefur hann unnið fyrir ÍBV af heilindum í fjölda mörg ár. Langt umfram laun eða starfslýsingar Ég upplifi þetta mál sem fjölskylduharmleik og það er erfitt og leiðinlegt að fylgjast með því. Ég vona að hér verði misstök viðurkennd og ég vona að Kári fái afsökunarbeiðni á því hvernig samstarfinu lauk því hann á það skilið. Ég vona svo auðvitað líka að sjá hann Kára með merki bandalagsins á brjóstinu og hann beri það stoltur, hvort sem það sé sem foreldri, þjálfari, stuðningsmaður eða leikmaður. Ég hef einhvern veginn alltaf séð fyrir mér að mæta í stórt partý til Eyja þegar hann Kári myndi hætta að spila, þar yrði fyrri titlum og frábærum stundum hampað og treyja númer 46 dregin upp í rjáfur. Mér finnst Kári vera þannig leikmaður og mér finnst ÍBV vera þannig félag.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.