Magnús Öder Einarsson (Kristinn Steinn Traustason)
Fyrirliði Íslands- og bikarmeistara Fram leikur áfram með liðinu á komandi tímabili. Þetta staðfesti Einar Jónsson þjálfari liðsins í samtali við Handkastið. Samningur Magnúsar við Fram rann út fyrr í sumar og hefur hann legið undir feldi í allt sumar en hann íhugaði að taka sér pásu frá handboltanum. Nú hefur hann hinsvegar ákveðið að taka slaginn og ætlar að leika með Fram-liðinu. Hann hefur nú þegar hafið æfingar með liðinu og verður í leikmannahópi liðsins þegar Fram leikur æfingaleik gegn Val í kvöld. Fram mætir síðan Stjörnunni í Meistarakeppni HSÍ á fimmtudagskvöldið í Úlfarsárdalnum en sá leikur hefst klukkan 19:00. Magnús sem er uppalinn á Selfossi gekk í raðir Fram í janúar 2022 og var fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð er liðið vann tvöfalt. Framundan er stór vetur hjá félaginu en liðið leikur í Evrópudeildinni á komandi tímabili.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.