Eyþór Lárusson (Sigurður Ástgeirsson)
Það styttist og styttist í komandi tímabil í Olís-deildum karla og kvenna en Olís-deild karla hefst miðvikudaginn 3. september á meðan Olís-deild kvenna hefst laugardaginn 6. september. Handkastið heldur áfram að hita upp fyrir Olís-deildirnar og hefur sent sömu sex spurningarnar á alla þjálfara deildarinnar í karla og kvenna flokki. Nú er komið að því að sjá hvað þjálfari Selfoss í Olís-deild kvenna Eyþór Lárusson hafði segja. Ertu ánægð/ur með hvernig undirbúningstímabilið hefur gengið? Já ég er ánægður með það hingað til. Við höfum æft vel og fórum í vel heppnaða æfingaferð. Það eru ennþá rúmar tvær vikur í mót og við þurfum að nota vel þá æfingaleiki sem við fáum fram að því. Hvernig metur þú þær mannabreytingar sem hafa orðið á liðinu í sumar? Þær eru töluverðar. Við missum frá okkur leikmenn sem hafa spilað stórt hlutverk hjá okkur undanfarin ár og á sama tíma er Perla í barnaeignarleyfi. Á móti höfum við fengið inn nýja leikmenn sem við bindum miklar vonir við og þá eru yngri leikmenn liðsins nær því að vera klárar í stærri hlutverk. Breytingarnar eru spennandi og áhugaverðar og tíminn mun vonandi leiða það í ljós að þær hafi heppnast vel. Hverjar telur þú vera helstu áskoranir þínar og liðsins í vetur? Þær eru margskonar. Að mínu mati felast þær helst í að slípa okkur saman og finna taktinn sem lið og liðsheild. Eins og ég nefndi áður eru nokkrar breytingar á liðinu, sem skila sér í breyttri uppstillingu hvort sem það er vörn, sókn, á opnum velli og í klefanum. Það tekur tíma að slípa það til. Hverjar eru væntingar þínar til tímabilsins? Væntingar mínar eru þær að við gerum betur en í fyrra í öllum keppnum. Við stígum einnig okkar fyrstu skref í Evrópu þetta árið og við viljum nota það tækifæri vel. Ef þú mættir velja þér einn leikmann úr öðru liði í deildinni til að fá í þitt lið - Hver væri það og afhverju? Ég tæki Selfyssinginn Kristrúnu Steinþórsdóttur. Hvaða lið telur þú að verði deildarmeistari í vetur? Haukar verða deildarmeistarar.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.