Kari Brattset (Attila KISBENEDEK / AFP)
Norska landsliðskonan, Kari Brattset Dale á von á sínu öðru barni í mars á næsta ári. Þetta tilkynnti hún á samfélagsmiðlum sínum fyrir helgi. Kari Brattset er leikmaður Evrópumeistara Gyori í Ungverjalandi en hún hefur leikið með félaginu frá árinu 2018. Handboltasérfræðingurinn Lars Rasmussen segist í samtali við Europamaster.dk hræðast það að vörn Noregs verði mun veikari án Brattset sem er einn öflugasti varnarmaður í heimi. En á sama tíma samgleðst hann norsku landsliðskonunni og hennar fjölskyldu. Brattset sem er 34 ára segir í tilkynningu sinni að hún stefni á endurkomu í boltann fyrr en síðar.
,,Fyrir Noreg þýðir það náttúrulega að þeir missa lykilmann á línunni. Kari er ekki aðeins líkamlega sterk og tæknilega örugg því hún er líka taktískur leiðtogi og ómissandi hluti í vörninni. Án hennar verður landsliðsþjálfarinn að endurbyggja bæði varnarbygginguna og sóknarleikinn, og það er ekki lítið mál að skipta henni út," sagði Rasmussen.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.