Jakob Jónsson (
Akureyringurinn Jakob Jónsson er kominn inn í þjálfarateymi kvennaliðs Kyndils í Færeyjum. Frá þessu er greint á Facebook síðu Kyndils nú á dögunum. Jakob er 61 árs gamall Akureyringur og ólst upp í KA. Var hann frábær handknattleiksmaður á sínum tíma og spilaði meðal annars um tíma í Noregi. Einnig varð Jakob Íslandsmeistari með KA árið 1997. Spilaði hann lítið í deildinni tímabilið 1996/1997 en Alfreð Gíslason þjálfari KA þá sleppti honum síðan lausum í úrslitakeppninni og gerði Jakob mörg mikilvæg mörk sem hjálpuðu KA að landa Íslandsmeistaratitlinum. Jakob fluttist síðan til Færeyja árið 1998, settist þar að og hefur búið þar allar götur síðan. Spilaði hann fyrstu árin sín í Færeyjum og fór svo að þjálfa. Jakob greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum en fékk síðan þær frábæru fréttir í sumar að hann væri orðinn krabbameinslaus. Handkastið óskar Jakobi til hamingju með að vera kominn aftur á hliðarlínuna og óskar honum góðs gengis.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.