Elín Klara Þorkelsdóttir (Marco Wolf / dpa Picture-Alliance via AFP)
Elín Klara Þorkelsdóttir gekk í raðir Savehof frá Haukum í sumar eftir að hafa leikið með uppeldisfélagi sínu allan sinn feril. Tímabilið í Svíþjóð hjá Elínu Klöru er komið á fullt, liðinu gengur vel í sænsku úrvalsdeildinni, komnar áfram í 2.umferð forkepnni Evrópudeildarinnar og þá er liðið komið í 8-liða úrslit sænska bikarsins. Sænski bikarinn er spilaður í annan hátt en við þekkjum hér á Íslandi. Tímabilið hefst með leikjum í bikarkeppninni en liðunum er skipt í átta fjögurra liða riðla þar sem spiluð er einföld umferð. En það er ekki allt - því í samtali Handkastsins við Elínu Klöru fyrir helgi greindi hún frá því að í Svíþjóð er farin athyglisverð leið í bikarleikjunum til að gera þá jafnari. ,,Fyrirkomulagið á bikarnum er frekar fyndið. Liðin sem að eru í neðri deildum fá að byrja á að taka 3-6 hraðarupphlaup í byrjun leiks,” sagði Elín Klara við Handkastið sem neyddist til að fræðast meira um málið. Eftir útskýringar frá Elínu Klöru um málið þá skýrðist málið enn frekar. Þannig er það að lið í deild fyrir neðan byrjar leikinn á þremur hraðarupphlaupum. Já, þið lásuð rétt. Leiki lið í 1.deild gegn liði í úrvalsdeild byrjar 1.deildarliðið á því að taka þrjú hraðarupphlaup þar sem markvörður sendir boltann upp völlinn án þess að boltinn megi snerta gólfið. Spili lið í 2.deild gegn liði í úrvalsdeild fær 2.deildarliðið að taka sex hraðarupphlaup áður en leikurinn fer af stað. Já - það er ekki annað hægt en að vera sammála Elínu Klöru um að fyrirkomulagið sé nokkuð fyndið en á sama tíma virkilega athyglisvert. Ákveðin nálgun hjá sænska handknattleikssambandinu til að gera leikina jafnari. Það er spurning hvort alþjóðahandknattleikssambandið taki upp á slíku á heimsmeistaramótum bæði félagsliða og landsliða þar sem oft á tíðum er mikill munur á milli liðanna í þeim keppnum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.