Ólafur Brim Stefánsson, Adam Haukur Baumruk (Sævar Jónasson)
Haukar unnu fjögurra marka sigur á Stjörnunni á heimavelli í 7.umferð Olís-deildar karla á fimmtudagskvöldið 34-30. Haukar voru 17-11 yfir í hálfleik og var sigur þeirra aldrei í hættu. Rætt var um leikinn í nýjasta þætti Handkastsins þar sem Stymmi klippari var spurður hvort þessi úrslit höfðu komið honum á óvart. ,,Þessi úrslit komu mér ekki á óvart, sérstaklega þegar ég horfði á leikskýrsluna fyrir leik. Þar sá ég að leikmaður umferðarinnar í síðustu umferð, Hans Jörgen Ólafsson hann var vant við látinn. Þá var Stjarnan með eina rétthenta skyttu og Haukar á sama tíma á góðu róli,” sagði Stymmi en Stjarnan er að spila á fáum leikmönnum um þessar mundir vegna meiðsla lykilmanna. ,,Aron Rafn var á sama tíma kominn til baka eftir golfferð. Hann var kominn aftur í hópinn en Haukarnir þurftu hinsvegar ekki að nota hann í leiknum,” bætti Stymmi við. Haukar fóru á topp deildarinnar með sigrinum en Stjarnan situr í 5.sæti deildarinnar með sjö stig eftir sjö leiki. ,,Maður sá bara muninn á þessum liðum í gær. Maður hljómar eins og meðvirkur þáttastjórnandi en Stjarnan voru ágætir í þessum leik. Haukarnir voru á sama tíma svolítið flatir og hægir en þeir gerðu nóg. Þessi sigur vannst í fyrri hálfleik þar sem Haukar komust sex mörkum yfir og Haukarnir káluðu Stjörnunni í hraðarupphlaupum eftir tæknifeila hjá Stjörnunni. Þetta er munurinn á liðunum í dag,” sagði Stymmi að lokum áður en gestur þáttarins, Kristinn Björgúlfsson tók til máls.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.