(
Þýski landsliðsmaðurinn Justus Fischer hefur misst 4,5 kíló frá því um helgina en Fischer hefur þurft að draga sig úr landsliðshópi Þýskalands fyrir æfingaleikina gegn Íslandi sem fara fram í dag og á sunnudag vegna veikinda. Justus Fischer er leikmaður Hannover-Burgdorf en samkvæmt þýska miðlinum Sport Bild hefur Fischer misst 4,5 kíló frá því um helgina en hann þurfti að skyndilega að yfirgefa völlinn vegna ógleði og uppkasta þegar hann lék gegn Magdeburg um síðustu helgi í þýsku úrvalsdeildinni. Atvikið átti sér stað um miðjan leikinn, þegar hann hljóp að varamannabekknum með treyjuna fyrir munninum og kastaði síðan upp. Síðan þá hefur ástand hans ekki batnað. ,,Því miður er engin jákvæð þróun. Justus líður enn ekki vel og því höfum við ákveðið í samráði við félagið að hann muni ekki ferðast í æfingabúðirnar,“ sagði Benjamin Chatton, sem er í þjálfarateymi þýska landsliðsins við Sport Bild. Þar af leiðandi verður landsliðsþjálfarinn Alfreð Gíslason að vera án unga línumannsins síns í báðum leikjunum gegn Íslandi. Fyrsti leikurinn verður leikinn í dag í Nürnberg, en seinni leikurinn fer fram á sunnudag í München. Leikur Þýskalands og Ísland í Nurnberg í dag hefst klukkan 18:30 og verður sýndur á RÚV 2.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.