Sanna Solberg Isaksen (Andrea Kareth / APA-PictureDesk via AFP)
Norska landsliðskonan Sanna Solberg-Isaksen leikmaður Team Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni er ólétt og verður því ekki með norska landsliðinu á HM í Þýskalandi og Hollandi sem hefst í lok nóvember. Sanna Solberg á von á sínu öðru barni. Þetta tilkynnti félagslið hennar á heimasíðu sinni í vikunni. Hún er 35 ára gömul og leikur sem vinstri hornamaður, á að baki 231 landsleik fyrir Noreg en hún lék lengi vel í norska landsliðinu undir stjórn Þóris Hergeirssonar. Hún hefur skorað rúmlega 450 mörk fyrir norska landsliðið. Á sama tíma og félagið tilkynnti um óléttuna var það tekið fram að leikmaðurinn hafi skrifað undir nýjan samning við félagið til ársins 2028. Sanna Solberg-Isaksen er leikjahæsti leikmaður í sögu Esbjerg með 384 leiki í öllum keppnum en hún hefur leikið með liðinu frá árinu 2017. Þar áður lék hún með Larvik og Stabæk í heimalandinu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.