wHaukar ((Kristinn Steinn Traustason)
Kvennalið Hauka tekur á móti spánska stórliðinu, Malaga í 32-liða úrslitum Evrópubikarsins en Valur eru ríkjandi meistarar í þeirri keppni, Valur sló einmitt út Malaga í leið sinni að titlinum á síðustu leiktíð. Fyrri leikur Hauka og Malaga fer fram á Ásvöllum annað kvöld klukkan 19:15. Handkastið heyrði í Díönu Guðjónsdóttur þjálfara Hauka og spurði hana aðeins út í stöðuna á Haukaliðinu og við hverju mætti búast annað kvöld. ,,Staðan á er hópnum er nokkuð góð en Sara Odden verður ekki með. Inga Dís er að koma inn eftir meiðsli. Alexandra Líf fékk högg á lærið í síðasta leik en verður vonandi orðin klár á morgun,” sagði Díana sem gerir ráð fyrir erfiðum leik gegn Malaga sem eru í 3.sæti spænsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir. ,,Þetta verða erfiðir leikir. Þær spila hraðan bolta, mikið um árásir og reyna mikið gegnum brot. Þær eru með hraða hornamenn, sterka vörn og mæta mikið á blindu hliðina varnarlega.” ,,Við þurfum fyrst og fremst að ná mjög góðri vörn, vera tilbúnar að verjast góðum árásum, fá þá markvörslu í kjölfarið þá koma kannski hraðaupphlaups mörk. Eins verðum við að spila agaðan og góðan sóknarleik,” sagði Díana sem vonast til að sjá sem flesta í stúkunni annað kvöld. ,,Þetta er bara fyrri hálfleikurinn hér heima. Við þurfum að muna að njóta. Það er forréttindi að vera í Evrópukeppni og það gefur tímabilinu svo auka skemmtun. Leikmenn hafa lagt mikið á sig til að geta verið þar, kostnaðurinn er mikill og því mikilvægt að hafa gaman og njóta. Við þurfum stuðning á Ásvöllum og vonandi mæta margir að styðja við okkur því þetta er kostnaðarsamt verkefni og inngangseyrinn hann hjálpar til við kostnað,” sagði Díana að lokum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.