Arnar Pétursson (JOHAN NILSSON / TT News Agency via AFP)
Arnar Pétursson þjálfari kvennalandsliðs Íslands tilkynnti 16 manna leikmannahóp sinn sem tekur þátt á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Þýskalandi og Hollandi síðar í mánuðinum, á föstudaginn í síðustu viku. Hópurinn var tilkynntur með tölvupósti frá starfsmanni HSÍ og síðan var fjölmiðlum gefinn kostur með þriggja tíma fyrirvara að hitta Arnar Pétursson í höfuðstöðvum HSÍ, fyrir viðtöl. Þessi vinnubrögð og ákvörðun HSÍ er fyrir neðan allar hellur að mati Arnars Daða Arnarssonar, þáttastjórnada Handkastsins. Rætt var um tilkynninguna á landsliðshópnum í nýjasta þætti Handkastsins. ,,Eigum við að byrja að ræða það hvernig þessi hópur var tilkynntur? Hópurinn var tilkynntur á sama hátt og þegar Snorri Steinn tilkynnti landsliðshóp sinn fyrir æfingaleiki gegn Þýskalandi. Ég er nokkuð viss um það þegar Snorri Steinn velur EM hópinn sinn þá verður fréttamannafundur. Þetta kemur mér mjög mikið á óvart og mér finnst þetta vera svolítið “downgrade” bæði á verkefnið sem framundan er og á stelpurnar yfir höfuð,” sagði Arnar Daði sem segist hafa fengið skilaboð frá hlustendum um helgina sem eiga hreinlega ekki til orð. ,,Ég skil ekki á hvaða vegferð HSÍ er með þetta. Mér skilst að Arnar Pétursson hafi eitthvað verið með puttana í því hvernig þetta yrði gert og hafi fengið að stjórna því hvernig hann myndi hafa þetta. Ef Arnar Pétursson sem æðsta vald innan kvennalandsliðsins vill ekki gera meira úr því þegar HM hópurinn er valinn en á sama tíma erum við að kalla eftir auknum fjárstyrk frá ríkinu þá finnst mér þetta ekki vera rétta leiðin. Mér finnst bara verið að tala niður verkefnið.” Stymmi klippari velti fyrir sér hvort Arnar Pétursson væri að setja tóninn fyrir verkefnið, að íslenska landsliðið væri að fara í þetta mót með litlar sem engar væntingar? ,,Mér finnst eins og menn séu bara að reyna gera ekki of mikið úr þessu en það er ekki það sem við þurfum eins og staðan er núna. Þarna finnst mér bara hljóð og mynd ekki fara saman þegar þú ert að reyna tala upp kvenna handboltann sem er að margra mati í sögulegri lægð þá bara trúi ég ekki að þetta hafi verið gert. Ég trúði því ekki þegar við fengum hópinn sendann í gegnum tölvupóst. Ég hélt bara að það væri búið að seinka tilkynningunni fram yfir helgi. Mér finnst þetta fyrir neðan allar hellur,” sagði Arnar Daði að lokum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.