Sara Dögg Hjaltadóttir (Sævar Jónasson)
Það hefur vakið athygli bæði Handkastsins og eins lesenda Handkastsins að einn besti leikmaður Olís-deildar kvenna í vetur, Sara Dögg Hjaltadóttir leikmaður ÍR hafi ekki verið valin í 35 manna hóp íslenska kvennalandsliðsins fyrir heimsmeistaramótið sem hefst eftir tæpar tvær vikur. Rætt var um þetta í nýjasta þætti Handkastsins þar sem mikið var hlegið af þessari ákvörðun en á sama tíma velt því fyrir sér hvaða rök liggja þarna á bakvið. Á sama tíma og Sara Dögg er ekki á 35 manna lista Arnars Péturssonar er nafn Tinnu Sigurrósar Traustadóttur leikmanns Stjörnunnar sem hefur verið í leikmannahópi Stjörnunnar tvívegis á tímabilinu og ekkert leikið með liði Stjörnunnar undanfarnar vikur. ,,Oft þegar maður skoðar þessa stóru lista þá reykspólar maður nú yfirleitt yfir þá og er ekkert að spá í þeim en við gerum hlutina aðeins öðruvísi í Handkastinu. Ég tók eftir því að nafn Tinnu Sigurrósar Traustadóttur er á þessum 35 manna lista. Hún er ekki einu sinni að æfa handbolta. Maður veltir fyrir sér, var Arnar Pétursson að nota gamalt template og sendi það út. Á sama tíma er Sara Dögg Hjaltadóttir besti leikmaður Olís-deildar kvenna í vetur ekki í þessum 35 manna hópi. En hann velur leikmann sem er ekki einu sinni að mæta á æfingar hjá sínu félagsliði. Ég velti fyrir mér hvort endurnýjunin og sparnaðurinn hjá HSÍ hafi verið aðeins of mikill og menn hafi notað gamalt template. Vonandi kemur ekki til þess að Elín Klara eða Elín Rósa meiðist, því þá er ekki hægt að kalla inn Söru Dögg en þjálfarnir geta kallað inn Tinnu Sigurrós,” sagði Stymmi klippari. Aðalsteinn Eyjólfsson var gestur Handkastsins. Hann viðurkennir að hafa ekki vitað af þessu áður en hann mætti í þáttinn en sagði þetta mál vera mjög óheppilegt ef satt reynist. ,,Kannski er Tinna gríðarlega góð í klefanum og skemmtilegur karakter. Miðað við lýsingarnar er þetta afskaplega óheppilegt.” Næst tók Arnar Daði Arnarsson til máls en hann er nýtekinn við sem aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar. ,,Það er frábært að þú opnir á þessa umræðu því ég hef svolítið ýtt þessari umræðu viljandi frá mér. Maður er ekkert rosalega mikið að pæla í þessum 35 manna listum. En það er óskiljanlegt að Sara Dögg sem við erum að tala um að hafi verið einn besti leikmaður deildarinnar skuli ekki vera í 35 manna lista landsliðsþjálfarana fyrir HM,” sagði Arnar Daði meðal annars en þessi frétt er einungis stytt útgáfa af því sem rætt var í Handkastinu. ,,Ég verð að taka undir þessi orð,” sagði Aðalsteinn Eyjólfsson og bætti við: ,,Ef við erum að tala um fagleg vinnubrögð þá er þetta áfellisdómur yfir vinnubrögðum landsliðsþjálfarana. Ef það er þannig að Tinna Sigurrós sé ekki að spila íþróttina en er samt valin í 35 manna hóp þá er þetta áfellisdómur fyrir vinnubrögðin þegar þeir eru að velja þennan lista.” ,,Arnar er mjög áhugsamur og hefur lagt gríðarlega mikið á sig í þessu verkefni. Þess vegna kemur þetta mér á óvart. Ég ætla vona að þetta hafi verið innsláttarvilla. Ég ætla leyfa honum að njóta vafans áður en annað kemur í ljós en auðvitað þarf hann að rökstyðja þetta val og hann þarf þá að fá þessar spurningar. En vandamálið er kannski að áhuginn hjá fjölmiðlafólki á kvennaboltanum virðist vera það lítill að það er enginn að spyrja svona spurninga.” ,,Ef þetta hefði verið í karlaboltanum þá hefði landsliðsþjálfarinn verið spurður út í það hvernig honum dettur í hug að skila svona lista frá sér. Hann þarf þá bara að svara fyrir það og eins og ég sagði áðan, ef það eru einhver rök fyrir því að þetta sé svona þá er það okkar að geta skylmast aðeins um þau rök,” sagði Aðalsteinn meðal annars en við mælum með að lesendur hlusti á umræðuna um þetta mál sem var töluvert lengri en hér er ritað.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.