Sandra Erlingsdóttir - wÍBV (Eyjólfur Garðarsson)
Heimsmeistaramót kvenna hefst í næstu viku en Ísland leikur opnunarleik mótsins fyrir framan fulla höll í Porsche Arena í Stuttgart á miðvikudaginn klukkan 17:00. Miklar breytingar eru á landsliði Íslands frá síðasta stórmóti á síðasta ári. Arnar Pétursson var tilneyddur til að gera átta breytingar á leikmannahópi sínum frá síðasta stórmóti. Þá hefur hann einnig þurft að velja nýtt fyrirliðateymi fyrir mótið þar sem fyrirliðar liðsins frá síðasta stórmóti eru hættar. Sandra Erlingsdóttir leikmaður ÍBV hefur verið valin nýr fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handbolta. Þetta staðfesti Arnar Pétursson í samtali við mbl.is á dögunum. Þar sagði hann að Sandra væri nýr fyrirliði liðsins og Thea Imani Sturludóttir leikmaður Vals væri með henni í fyrirliðateyminu. Sunna Jónsdóttir leikmaður Fram í dag, var fyrirliði landsliðsins um árabil en hún tilkynnti að hún væri hætt að spila með landsliðinu í febrúar á þessu ári. Síðustu leikir Sunnu voru á EM í desember á síðasta ári.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.