Díana Dögg Magnúsdóttir - Grænland (Ritzau Scanpix / AFP)
Landsliðskonan, Díana Dögg Magnúsdóttir leikmaður Blomberg Lippe í þýsku úrvalsdeildinni hefur framlengt samningi sínum við félagið til næstu tveggja ára. Félagið tilkynnti þetta á samfélagsmiðlum sínum nú rétt í þessu. Díana Dögg verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu sem hefst á miðvikudaginn þegar stelpurnar okkar hefja leik gegn Þýskalandi klukkan 17:00. Blomberg-Lippe er á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar og leika í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur eftir að hafa slegið út Val í forkeppni Evrópudeildarinnar. Díana Dögg gekk í raðir Blomberg Lippe sumarið 2024 og gerði þá tveggja ára samning. Samningur hennar var því að renna út eftir þetta tímabil en nú er ljóst að hún mun leika áfram með liðinu næstu tvö árin í það minnsta. Með Blomberg-Lippe leika samherjar Díönu Daggar í íslenska landsliðinu þær Andrea Jacobsen og Elín Rósa Magnúsdóttir.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.