Ísland - Þýskaland (MARIJAN MURAT / dpa Picture-Alliance via AFP)
Íslenska landsliðið leikur sinn annan leik á heimsmeistaramótinu í kvöld gegn Serbíu en leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV. Serbía vann Úrúgvæ nokkuð sannfærandi í 1.umferðinni á meðan íslenska landsliðið tapaði gegn Þjóðverjum í opnunarleik mótsins. Sandra Erlingsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins er spennt fyrir leiknum í kvöld og segir að íslenska liðið þurfi að eiga toppleik til að eiga möguleika í kvöld. ,,Við fórum vel yfir okkar varnarleik í gær og þetta verður algjör barátta. Þær eru ótrúlega harðar fyrir og eru frekar grófar á milli. Þær leita rosalega mikið af línunni og við þurfum að yfirdekka línuna rosalega vel allan leikinn. Síðan geta þær líka skotið fyrir utan svo þetta verður mjög krefjandi verkefni fyrir okkur,” sagði Sandra um sóknarleik Serbíu. Hún gerir ráð fyrir öðruvísi skák sóknarlega heldur en gegn Þýskalandi þar sem Serbarnir eru töluvert passívari varnarlega heldur en þær þýsku. ,,Þær eru töluvert flatari varnarlega heldur en Þjóðverjarnir og við þurfum að gera góðar árásir til að fá þær til að hreyfa sig. Línumaðurinn þeirra er mjög stór, það er því mikilvægt fyrir okkur þegar hún er að skjóta að keyra vel á þær og refsa þeim,” sagði Sandra og bætir við að auðvitað þurfi íslenska liðið að fækka sóknarmistökunum frá því í síðasta leik en íslenska liðinu var refsað harkalega fyrir öll mistök sóknarlega í þeim leik. ,,Það var algjört adrenalínkast að keppa leikinn gegn Þjóðverjum á miðvikudaginn fyrir framan fulla höll og núna hafa allir náð sér niður eftir það. Það verður því mikilvægt fyrir okkur að byrja keyra okkur upp aftur. Við eigum góðan séns gegn þeim en á sama tíma eru þær mjög góðar og þetta verður mjög krefjandi. Við þurfum að eiga toppleik til að eiga möguleika en við vonumst auðvitað eftir að ná því,” sagði Sandra Erlingsdóttir fyrirliði Íslands að lokum í samtali við Handkastið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.