Snorri steinn Guðjónsson (Kristinn Steinn Traustason)
Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari íslenska karla landsliðsins valdi í gær 35 manna lista leikmanna sem eru löglegir með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu sem framundan er í janúar á næsta ári. Mikil umræða skapaðist um 35 manna lista kollega Snorra, Arnars Péturssonar þjálfara íslenska kvennalandsliðsins fyrir heimsmeistaramótið sem er nú í gangi. Snorri Steinn viðurkennir að sú umræða hafi alveg haft áhrif á hans undirbúning fyrir valið á þeim 35 manna lista sem hann tilkynnti í gær. ,,Ég tók eftir þeirri umræðu en þetta er þriðja skiptið sem ég geri þetta og ég hef lagt mikla vinnu í þennan lista hingað til og það var engin breyting á því í þetta skiptið. Það fer tími í þetta og það fer tími í að velja leikmann númer 33, 34 og 35. Það er örugglega 10-12 nöfn sem eru til hliðar sem hefðu hæglega getað verið þarna,” sagði Snorri Steinn sem bætti við að honum þætti mikilvægt að vanda sig og gefa sér tíma í þennan 35 manna lista. ,,Það sem skiptir auðvitað mestu máli er að ég sé sáttur með listann og ég er það í dag.” Snorri Steinn gerir ráð fyrir því að fara með 18 leikmenn á EM og segist stefna á að velja 18 manna lokahóp fyrir EM 18.desember. ,,Draumastaðan væri að ég gæti valið mitt sterkasta lið 18. desember og tilkynnt lokahópinn þá. Það geta skapast aðstæður, eins og með Þorstein Leó eða aðra leikmenn, að menn séu ekki alveg heilir heilsu en þú vilt sjá hvernig standið á þeim er. Þá þurfum við kannski að breyta þeim pælingum.” ,,Ég hef haft leikmenn inn á æfingum í gegnum tíðina, yfirleitt leikmenn sem eru að spila hér heima. Bæði til að sjá þá og fyrir þá að fá smjörþefinn. Ég ætla vega og meta og tekið stöðuna á leikmönnunum um miðjan desmeber.” Snorri bendir á að misjafnt álag sé framundan á leikmönnum íslenska landsliðsins í desember. ,,Það er mikið álag framundan hjá þeim leikmönnum sem eru að spila í Þýskalandi. Það er því mikið sem getur gerst,” sagði Snorri Steinn að lokum í samtali við Handkastið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.