Höfum ekki unnið almennilega þjóð á stórmóti frá árinu 2011
{{brizy_dc_image_alt entityId=

Ísland (FEDERICO GAMBARINI / dpa Picture-Alliance via AFP)

Íslenska kvennalandsliðið tapaði í gær með sjö mörkum gegn Spánverjum, 30-23 eftir að hafa verið einu marki undir í hálfleik. Íslenska liðið hóf seinni hálfleikinn vel og var þremur mörkum yfir þegar rúmlega 20 mínútur voru eftir af leiknum 19-16.

Þá tók við hræðilegur kafli hjá íslensku stelpunum og spænska liðið vann næstu mínútur 13-1. Rætt var um leikinn í nýjasta þætti Handkastsins þar sem Einar Ingi Hrafnsson var gestur þáttarins. 

Einar Ingi var spurður út í hans skoðun á því að Thea Imani Sturludóttir sem var markahæsti leikmaður Íslands í leiknum og valin besti leikmaður leiksins hafði verið tekin útaf rétt áður en slæmi kafli Íslands kom í leiknum. 

Rætt var um þessa ákvörðun Arnars Péturssonar í HM Stofunni á RÚV í gær þar sem Arnar var gagnrýndur. Hann svaraði fyrir það í viðtali við RÚV í kjölfarið og sagði að um væri að ræða álagsstjórnun.

,,Mín skoðun er sú að ef Thea getur ekki spilað meira og er sjálf að skipta sér útaf eins og Arnar Pétursson sagði í viðtali eftir leik, þá þarf að stýra þessu betur þannig við eigum hana á þessum lokakafla. Þá þarf hún að vera í varnarskiptingu þegar hún er nær bekk,” sagði Einar Ingi og bendir á að leikurinn hafi hrunið á þeim kafla sem Thea var útaf.

,,Það er auðvitað auðvelt að vera vitur eftir á en mér finnst að þegar við erum þremur mörkum yfir gegn Spánverjum þá keyrum við á þær til að vinna. Ég veit að það er gott fyrir stelpurnar að fá reynslu en við höfum ekki unnið almennilega þjóð á stórmóti frá árinu 2011. Við unnum Úrúgvæ og allskonar þjóðir í Forsetabikarnum fyrir tveimur árum. En við höfum ekki unnið stórþjóð frá árinu 2011 á stórmóti og þarna var mómentið að vinna Spánverjana og leggja aðeins til hliðar þetta tal um einhverja vegferð og hvar við ætlum að vera og þroska leikmenn. Þetta hefur verið sama talið í mörg ár. Ég hefði viljað sjá liðið fara all-in og reyna vinna þennan leik,” sagði Einar Ingi Hrafnsson og skaut hressilega á ákvörðun þjálfarateymisins að hafa tekið sjóðandi heita Theu Imani Sturludóttir útaf á vendipunkti í leiknum sem eftir á að hyggja reyndist dýr ákvörðun.

Sigurinn sem Einar Ingi vísar í, er frækinn sigur Íslands á Þjóðverjum á HM í Brasilíu 2011 sem Ísland vann 26-20.

Hægt er að hlusta á nýjasta þátt Handkastsins á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Nýjustu fréttir

{{brizy_dc_image_alt imageSrc=

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top