Janus Daði Smárason (Julien Kammerer / DPPI via AFP)
Íslendingarnir voru í eldlínunni í Evrópuboltanum í dag eins og vanalega. Landsliðsmaðurinn Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur í stórsigri Sporting gegn Braga í portúgölsku úrvalsdeildinni í dag. Sporting vann leikinn 43-27. Orri Freyr skoraði átta mörk í leiknum en Sporting er í 2.sæti deildarinnar á eftir Porto en eiga leik til góða. Í Ungverjalandi voru Íslendingaliðin í eldlínunni, Veszprém og Pick Szeged í ungversku úrvalsdeildinni. Janus Daði Smárason er kominn á fullt eftir meiðsli og skoraði þrjú mörk í sigri Pick Szeged gegn Budakalász, 41-23 en staðan í hálfleik var 23-12 Pick Szeged í vil. Bjarki Már Elísson var hinsvegar ekki í leikmannahópi Veszprém í dag er liðið vann ETO University 47-36 en Bjarki Már er að jafna sig af meiðslum. Gasper Marguc var markahæstur í liði Veszprém með sjö mörk og Ivan Martinovic var næstur með sex mörk. Pick Szeged er á toppi deildarinnar með 23 stig en Veszprém er stigi á eftir þeim. Veszprém hefur hinsvegar leikið þremur leikjum færra í deildinni en Veszprém vann innbyrðis leik liðanna fyrr á tímabilinu með einu marki, 32-31.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.