Sigvaldi Björn Guðjónsson (Ruben De La Rosa / NurPhoto via AFP)
Fjárhagsvandræði norskastórliðsins, Kolstad halda áfram og norskir fjölmiðlar greina frá því í dag að allt bendi til þess að lykilleikmenn í félaginu þurfi enn og aftur að taka á sig launalækkun. Það er TV2 sem greinir frá. Þrír Íslendingar leika með Kolstad í dag, þeir Benedikt Gunnar Óskarsson, Sigurjón Guðmundsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson. Í fyrra voru fimm Íslendingar að mála hjá liðinu en Sveinn Jóhannsson yfirgaf liðið í sumar og Arnór Snær Óskarsson gekk í raðir Vals frá Kolstad í síðasta mánuði. Samkvæmt heimildum TV2 var stjórnarfundur um helgina þar sem tekist hafi verið á um stöðu mála hjá félaginu. Þar segir að leikmönnum hafi verið gerð grein fyrir ástandinu og svo virðist sem það séu launahæstu leikmennirnir sem þurfi að taka á sig launalækkunina. Þar eru fimm leikmenn nefndir til sögunnar meðal annars landsliðsmaðurinn, Sigvaldi Björn Guðjónsson sem og þeir Göran Johannessen, Magnus Gullerud, Simen Lyse og markvörðurinn Andreas Palicka. Simen Lyse gengur í raðir PSG næsta sumar. Kolstad er í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa unnið ellefu af fyrstu tólf leikjum sínum í vetur en er stigi á eftir Elverum og á leik til góða. Í Meistaradeild Evrópu er Kolstad með fjögur stig eftir tíu umferðir en liðið vann Fuchse Berlín óvænt í síðustu umferð. Félagið hefur þurft að bregðast við fjárhagsvandræðunum síðustu vikur og hafa leikið heimaleiki sína í Meistaradeildinni í minni höll en yfirleitt vegna kostnaðar. EHF, hefur verið misánægt með það ákvörðun og segir félagið vera á undanþágu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.