wÍR (Sævar Jónasson)
Lokaumferðin í Olís-deild kvenna fyrir áramót hefst í kvöld í Vestmannaeyjum með einum leik þegar toppslagur fer fram. ÍBV tekur á móti ÍR en ÍBV er á toppi deildarinnar ásamt Val með 16 stig en ÍR er í 3.sæti með 14 stig. ÍBV vann sannfærandi sigur gegn Selfossi um helgina á meðan Fram tapaði á heimavelli gegn Fram 27-30. Í lið ÍR sneru þær Sylvía Sigríður Jónsdóttir og Karen Tinna Demain til baka en þær höfðu ekkert leikið með ÍR á tímabilinu. Karen Tinna er að koma til baka eftir barnsburð en Sylvía Sigríður meiddist á hné í æfingarleik liðsins gegn FH á undirbúningstímabilinu í sumar þar sem hún reif aftara krossband. Sylvía þurfti ekki að gangast undir aðgerð. Þá var vinstri hornamaðurinn, Hanna Karen Ólafsson í leikmannahópi ÍR gegn Fram en hún er á Íslandi í stutta stund en hún flutti erlendis í upphafi tímabils en er heima í kringum hátíðirnar. Sylvía Sigríður átti frábæra innkomu í lið ÍR í leiknum gegn Fram og var Grétar Áki Andersen þjálfari ÍR ánægður með hennar framlag í leiknum. Sylvía skoraði sex mörk fyrir ÍR leik leiknum. ,,Ég ætlaði alls ekki að nota Sylvíu svona mikið. Við fengum bæði Sylvíu og Karen Tinnu inn og þær eru að koma inn af fullum krafti til okkar. Ég bjóst enganveginn við því að nota Sylvíu svona mikið. Hún kom inn af þvílíkum krafti og stóð sig frábærlega. Hún er þessi X-faktor sem okkur vantaði uppá sóknarleikinn. Það sést síðan að þegar hún var búin að spila í 10 mínútur þá sást að leikformið var ekki mikið og það sást vel í seinni hálfleik,” sagði Grétar Áki í viðtali við Handkastið eftir tapið gegn Fram. Hann var spurður út í leikinn sem fer fram í kvöld. ,,Við erum að fara í toppslag. Þetta er allt hörkuleikir sem við erum að spila og þegar við mætum klárar þá getum við unnið öll lið. Við erum að fara spila við hörkulið ÍBV og við ætlum okkur að gera allt sem við getum til að vinna þann leik,” sagði Grétar Áki Andersen þjálfari ÍR í viðtali við Handkastið en ÍR-liðið ferðaðist til Vestmannaeyja í gær.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.