Afturelding (Egill Bjarni Friðjónsson)
Lokaleikurinn í 8 liða úrslitum fór fram í Mosfellsbæ í kvöld þegar Afturelding tók á móti FH. Fyrirfram var búist við jöfnum og spennandi leik og það var svo sannarlega raunin fyrir áhorfendur sem lögðu leið sína í Mosfellsbæinn í kvöld eða horðu á í sjónvarpinu. Jafnt var á öllum tölum í fyrri hálfleik og skiptust liðin á því að leiða leikinn með einu marki og það fór því vel á því að staðan í hálfleik væri 15-16, FH-ingum í vil. Í upphafi síðari hálfleiks virtust FH ætla að stiga af þegar þeir komust í sex marka forystu 15-21. Á þeim kafla var Daníel Andrésson frábær í marki FH og heimamenn í Aftureldingu voru að útfæra 7 á 6 sóknarlega illa sem gaf FH tækifæri á að skora auðvelt mörk í tómt markið. Afturelding gáfust þó ekki upp og náðu að vinna sig aftur inn í leikinn og jafna 23-23 en Einar Baldvin markvörður Aftureldingar tók heldur betur við sér á þeim kafla. FH voru skrefi á undan allt fram til leiksloka en Afturelding aldrei langt undan. FH hafði nokkur tækifæri til að gera út um leikinn undir restina en Einar Baldvin fór á kostum í markinu og gaf liðsfélögum sínum tækifæri eftir tækifæri til þess að jafna leikinn. Það tókst svo loksins þegar Þorvaldur Tryggvason jafnaði leikinn í 29-29 af línunni þegar 8 sekúndur voru til leiksloka. Sigursteinn Arndal þjálfari FH tók leikhlé sem gekk heldur betur upp þegar Garðar Ingi Sindrason skoraði sigurmark FH þegar 3 sekúndur voru til leiksloka og tryggði FH, 29-30, sigur og sæti í Final 4 úrslitum Powerade bikarsins. Ihor Kopyshynskyi var markahæstur í liði heimamanna í kvöld með 8 mörk en hjá gestunum var hetja Garðar Ingi Sindrason markahæstur með 8 mörk. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út nóvember. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.