Ísland 2008 (HSÍ)
Íslenska drengja landsliðið skipað leikmönnum 18 ára og yngri tapaði í kvöld fyrir heimamönnum í Þýskalandi í úrslitaleik Sparkassen Cup sem haldið er í Merzig. Íslenska liðið tapaði fyrir þýska landsliðinu með þriggja marka mun 31-28 eftir að hafa verið 18-17 yfir í hálfleik. Íslenska liðið sem hafði unnið alla hina fjóra leiki sína á mótinu voru með forystu allan fyrri hálfleikinn og komust til að mynda fimm mörkum yfir í stöðunni 9-4. Þjóðverjarnir komu hinsvegar til baka og minnkuðu muninn í eitt mark fyrir hálfleik. Í seinni hálfleik reyndist vera meira á tanknum hjá Þjóðverjum sem komust mest fimm mörkum yfir, 25-20. Íslenska liðið minnkaði muninn í eitt mark í stöðunni 29-28 en Þjóðverjarnir skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og unnu að lokum þriggja marka sigur. Sömu þjóðir mættust í úrslitum Ólympíuhátið æskunnar í sumar þar sem íslenska liðið vann þriggja marka sigur 28-25. Ásgeir Örn Hallgrimsson og Andri Sigfússon eru þjálfarar liðsins. Brynjar Narfi Arndal var markahæstur í liði Íslands með tíu mörk í leiknum en Brynjar Narfi er fæddur árið 2010 og því að spila upp fyrir sig með þessu landsliði. Mörk Íslands: Brynjar Narfi Arndal 10, Patrekur Smári Arnarsson 4, Bjarki Snorrason 4, Ómar Darri Sigurgeirsson 3, Kári Steinn Guðmundsson 2, Freyr Aronsson 2, Örn Kolur Kjartansson 1, Matthías Dagur Þorsteinsson 1, Anton Frans Sigurðsson 1, Alex Unnar Hallgrímsson 1. Markvarsla: Anton Heldersson 14 varin, Sigurmundur 1 varið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.