Færeyjar - Elias Ellefsen a Skipagotu (Piotr Matusewicz / DPPI via AFP)
Færeyska stórstjarnan Elías frá Skipagötu var hátt uppi eftir jafnteflið sem Færeyjar náðu gegn Sviss í opnunarleik liðsins á Evrópumótinu en Færeyjar jöfnuðu alveg í blálokin. Eins og áður hefur komið fram er um 10% færeysku þjóðarinnar mætt til Noregs að styðja liðið á Evrópumótinu. Elías Frá Skipagötu sagði eftir leik liðsins að áhorfendurnir hefðu átt stóran þátt í þessu stigi og að þeir hefðu dregið þá áfram þegar þreytan var orðin mikil. ,,Ég held þetta séu bestu áhorfendur í heimi, við erum svo glaðir að þeir séu hér að styðja okkur. Það er þeim að þakka að við náðum þessu stigi í dag því það er auðveldara að berjast áfram með svona frábæran stuðning úr stúkunni" sagði Elías við EHF eftir leikinn. Færeyingar leika sinn annan leik á Evrópumótinu í dag er þeir mæta Svartfellingum klukkan 17:00. Svartfjallaland tapaði með einu marki gegn Slóveníu í fyrsta leik sínum á föstudaginn og því er mikið undir fyrir bæði lið í leiknum í dag.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.