Gísli Þorgeir (Sævar Jónasson)
Handkastið gerði upp sigur Íslands á Ungverjalandi í lokaleik strákanna okkar í riðlakeppni Evrópumótsins gær. Ísland vann Ungverja með einu marki, 24-23 í ótrúlegum handboltaleik sem bauð upp á nánast allt sem handboltinn getur boðið uppá. Það var því mikið að fara yfir í uppgjörsþættinum en Arnar Daði Arnarsson, Sérfræðingurinn fékk til sín þá Stefán Rafn Sigurmannsson og Tómas Þór Þórðarson og fóru þeir yfir nánast allt sem gerðist í leiknum og gott betur en það. Rætt var meðal annars um spennustigið hjá íslenska liðinu í upphafi leiks sem kostaði liðið marga tapaða bolta og var Viktor Gísli Hallgrímsson bjargvættur í upphafi leiks en hann var að lokum valinn maður leiksins eftir frábæra frammistöðu sína allan leikinn. ,,Þetta var allt frekar þyngra en það sem við höfðum séð í fyrstu tveimur leikjunum. Við sáum það fyrstu mínúturnar, andrúmsloftið var þyngra og aðeins meira stress í mönnum. Við vorum að tapa mörgum boltum en þetta er allt frekar skiljanlegt. Við höfum verið í vandræðum með Ungverjanna í gegnum tíðina. En þetta endaði mjög vel,” sagði Stefán Rafn Sigurmannsson fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður Íslands sem var gestur í uppgjörsþætti Handkastsins eftir sigurinn á Ungverjum. ,,Vonandi höfum við tekið þetta út núna, því þetta ungverska lið er langt í frá að vera frábært og við vorum í rauninni sjálfum okkur verstir. Við erum að fara tala um marga rosalega góða hluti í leiknum en það voru líka rosalega margir lélegir hlutir og við gerðum að mörgu leiti allt sem við gátum til að vinna ekki þennan leik. Sérstaklega í byrjun, við erum með fjóra tapaða bolta í byrjun leiks. Gísli Þorgeir sem átti eftir að eiga stórkostlega frammistöðu, ég hélt að hann væri að fara fá heilablóðfall í beinni. Hann tók verstu ákvarðanir sem ég hef séð hann spila og þá er ég að taka inn í myndina líka þegar hann var 17 ára í FH. En hann var fljótur að ná sér og átti stórkostlega frammistöðu,” sagði Tómas Þór meðal annars um slæma byrjun íslenska liðsins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.