
Bjarki Már Elísson (JOHAN NILSSON / TT News Agency via AFP)
Það vakti athygli margra að eftir frábæra frammistöðu Orra Freys Þorkelssonar í fyrstu tveimur leikjum Íslands að Bjarki Már Elísson hafi byrjað inná í sigri Íslands gegn Ungverjum á þriðjudagskvöldið. Bjarki Már fann sig ekki í leiknum og skoraði eitt mark úr fjórum skotum. Orri Freyr kom inná í hálfleik og skoraði þrjú mörk úr fimm skotum, þar af tvö úr vítum. Orri Freyr og Bjarki Már hafa skipt með sér hálfleikjum í fyrstu þremur leikjum Íslands á mótinu. Stefán Rafn Sigurmannsson fyrrum vinstri hornamaður í íslenska landsliðinu var gestur í uppgjörsþætti Handkastsins eftir sigurinn á Ungverjum og var spurður út í þá taktík Snorra Steins að vera skipta vinstri hornamönnunum eftir hálfleikjum. ,,Ég veit ekki hvað Snorri Steinn er að hugsa með þessu. Hvort hann sé að skipta þeim 30/30 mínútur og hvort það hafi áhrif á hvor vallarhelmingnum Ísland byrjar. Ef þú ert ekki vanur þessu, þá er það óþægilegt. Bjarki Már þekkir þetta hjá Veszprém og ég og Orri spiluðum þetta hjá Haukum áður en hann fór út. Ég spilaði svona í Pick Szeged og mér fannst þetta fínt og virkaði fínt. Stundum var þetta 15/15 eða hálfleikur og hálfleikur. Þá vissi maður það bara og gaf allt í þetta. Þetta gekk vel í síðasta leik gegn Póllandi en núna var þetta aðeins þyngri hálfleikur hjá Bjarka en Orri kom frábær inn og negldi þetta í fyrstu sókn. Mér finnst þetta fín pæling,” sagði Stefán Rafn og bætti við: ,,Mótið er langt en ég veit alveg hvernig Orri er, hann er graður og vill spila 60 mínútur alltaf og gefur allt í þetta og þeir báðir í rauninni.” Alþingismaðurinn, Tómas Þór Þórðarson var einnig gestur Handkastsins. ,,Ég var mjög pirraður þegar Bjarki klúðraði fyrstu tveimur færunum sínum. Hann er einhversstaðar með það aftast í kollinum að í þessum stóru leikjum sem voru einu sinni hans leikir, hefur hann verið að klúðra og talaði um það meiri segja eftir síðasta leik. Í hálfleik viðurkenndi hann meiri segja í viðtali að hann hafi ekki verið öflugur. Það hefði verið fróðlegt ef hann hefði klúðrað einu skoti í viðbót fyrr í leiknum, hvort Snorri Steinn hafi hreinlega tekið hann útaf.” ,,Var Snorri Steinn ekki að veðja á aðeins meiri reynslu í svona leik til að byrja með? Síðan verðum við að horfast í augu við staðreyndir og raunveruleikann að ef við ætlum að fá handboltamark úr vinstra horninu þá er dúllurassgatið úr Haukunum miklu betri hornamaður,” sagði Tómas Þór meðal annars í uppgjörsþætti Handkastsins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.