Daníel Þór Ingason (MARIUS BECKER / dpa Picture-Alliance via AFP)
Daníel Þór Ingason leikmaður ÍBV var ekki í leikmannahópi liðsins þegar liðið tapaði með tíu mörkum gegn Haukum í lokaleik 6.umferðar Olís-deildar karla í dag. Daníel Þór staðfesti í samtali við Handkastið að hann hafi meiðst illa á öxl daginn fyrir leikinn. Það sem vekur hvað mest athygli í þessu öllu saman, er að Daníel Þór meiddist þó ekki á lokaæfingu ÍBV fyrir leikinn gegn Haukum. Þannig er mál með vexti að Daníel Þór varð fyrir alvarlegum meiðslum á hægri öxl við tökur á efni fyrir samfélagsmiðla HSÍ fyrir Olís-deildina. HSÍ hafa verið duglegir að virkja leikmenn í Olís-deildum karla og kvenna með myndefni sem sett eru á samfélagsmiðla Olís-deildarinnar og HSÍ. Í gær var HSÍ að taka upp efni fyrir samfélagsmiðla sína í Vestmannaeyjum og þar var Daníel Þór ásamt liðsfélögum sínum í ÍBV að taka upp ýmiskonar myndskeið. Í einu af myndböndunum áttu leikmenn ÍBV að taka þátt í myndskeiði líkt og þessu. Það var í hlut Daníels Þórs að hoppa yfir leikmann ÍBV en Daníel Þór vissi ekki að leikmaður ÍBV myndi beygja sig undan, með þeim afleiðingum að Daníel Þór lenti harkalega á hægri öxl sinni en myndbandið var tekið inní íþróttahúsi ÍBV og því lenti Daníel Þór á parketinu. Daníel Þór sagði í samtali við Handkastið að hann hafi farið myndatöku í dag og bíður hann nú eftir niðurstöðum úr þeirri myndgreiningu. Ljóst er að hann er ekki axlarbrotinn en hann segist gera ráð fyrir því að vera frá í einhverntíma. Óvíst er hversu lengi Daníel Þór Ingason verður frá keppni vegna meiðslanna en ÍBV mætir Aftureldingu í 7.umferð Olís-deildar karla á laugardaginn. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út október. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.