Elísa Elíasdóttir ((Baldur Þorgilsson)
Það verður stórleikur í N1-höllinni að Hlíðarenda í dag þegar seinni leikur Vals og þýska toppliðsins í Blomberg-Lippe fer fram í forkeppni Evrópudeildarinnar. Þýska liðið með þær Andreu Jacobsen, Elínu Rósu Magnúsdóttur og Díönu Dögg Magnúsdóttur innbyrðis standa vel að vígi fyrir leikinn í dag en þær unnu fyrri leikinn með þrettán mörkum 37-24. Andrea Jacobsen verður hinsvegar ekki með í leiknum í dag líkt og í fyrri leiknum vegna meiðsla á ökkla. Það verður hinsvegar mikið um dýrðir í Valshöllinni í dag og ætla Valsarar að vera með alvöru Evrópustemningu en leikurinn sjálfur hefst klukkan 17:00. Valur ætlar að bjóða upp á Fan Zone sem opnar klukkan 15:30 þar sem matur og drykkir verða til sölu. Ágúst Jóhannsson þjálfari karlaliðs Vals og fyrrum þjálfari kvennalið Vals ætlar að fara yfir lið Blomberg Lippe áður en leikurinn hefst. Handkastið hvetur lesendur sína til að fjölmenna í Valshöllina seinni partinn í dag og sjá hágæða handbolta en eins og fyrr segir er Blomberg-Lippe á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.