Hafdís Renötudóttir (Baldur Þorgilsson)
Evrópubikarmeistarar Vals frá síðustu leiktíð komast ekki í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eftir jafntefli liðsins gegn þýska liðinu, Blomberg-Lippe á heimavelli í dag, 22-22 en þýska liðið vann fyrri leikinn sannfærandi með þrettán marka mun 24-37. Einvígið fór því 46-59 fyrir Íslendingaliðinu Blomberg-Lippe en með liðinu leika íslensku landsliðsstelpurnar Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir. Þær leika því í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur. Blomberg Lippe var fjórum mörkum yfir í hálfleik 10-14 en Valsstelpur sýndu frábæran karakter í seinni hálfleik og jöfnuðu metin í stöðunni 16-16. Þjóðverjarnir voru alltaf skrefi á undan en Mariam Eradze skoraði síðasta mark leiksins rétt fyrir leikslok. Valsstelpur fengu tækifæri til að vinna leikinn en misstu boltann í lokasókn sinni. Blomberg-Lippe fór upp í sókn en Hafdís Renötudóttir varði í tvígang en hún var frábær í leiknum og varði 17 skot í markinu. Thea Imani Sturludóttir var markahæst í liði Vals með sex mörk og Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði fimm. Elín Rósa Magnúsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Blomberg-Lippe og Díana Dögg Magnúsdóttir eitt. Andrea Jacobsen er að glíma við meiðsli og lék því hvorugan leikinn.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.