Þorsteinn Leó Gunnarsson (Kristinn Steinn Traustason)
Vinstri skytta íslenska landsliðsins og portúgalska liðsins, Porto Þorsteinn Leó Gunnarsson verður frá vegna meiðsla næstu vikurnar í það minnsta. Þetta staðfesti Þorsteinn Leó í samtali við Handkastið nú rétt í þessu. Þorsteinn Leó meiddist á nára í upphafi leiks Porto og Elverum í 4.umferð Evrópudeildarinnar á þriðjudagskvöldið en Porto tapaði með tveimur mörkum í leiknum, 29-31 en bæði lið eru í riðli með Fram í Evrópudeildinni. Þorsteinn Leó fór í myndatöku í gær og hefur nú fengið niðurstöðurnar í hendurnar. Þorsteinn Leó meiddist illa á nára strax á upphafs mínútu leiksins og þurfti að fara af velli. Hann kom ekkert meira við sögu í leiknum en ,,Ég er með rifu í náranum og liðbandinu þar í kring. Læknarnir segja að ég verði frá í nokkrar vikur," sagði Þorsteinn Leó en er EM í hættu sem hefst um miðjan janúar? ,,Það verður að koma í ljós. Ég vona það besta og vonandi næ ég EM. Læknarnir segja að þetta gæti tekið 10 vikur en ætla að reyna að ná EM," sagði Mosfellingurinn í samtali við Handkastið. Í dag er 20. nóvember og ekki nema átta vikur í fyrsta leik Íslands á EM gegn Ítalíu, föstudaginn 16.janúar. Það er því hægt að segja að Þorsteinn Leó þarf á kraftaverki að halda til að ná EM í janúar. Um er að ræða hrikalega slæmar fréttir fyrir Þorstein Leó og íslenska landsliðið fyrir stórmótið í janúar en Þorsteini Leó var ætlað stóru hlutverki með liðinu miðað við hlutverk hans með íslenska landsliðinu gegn Þjóðverjum á dögunum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.