Viggó Kristjánsson - HC Erlangen (Tom Weller / dpa Picture-Alliance via AFP)
Tveir leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í dag þar sem þrjú Íslendingalið voru í eldlínunni. Í fyrri leik dagsins hafði Erlangen betur gegn Leipzig í Íslendingaslag og í seinni leik dagsins vann Eisenach sigur á Göppingen á heimavelli. Íslendingarnir í liði Erlangen, þeir Viggó Kristjánsson og Andri Már Rúnarsson voru markahæstir í sigrinum á Leipzig en Viggó skoraði átta mörk og gaf fimm stoðsendingar og Andri Már skoraði fimm mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Faðir Andra, Rúnar Sigtryggsson verður í eldlínunni á morgun en hann tók við liði Wetzlar í vikunni. Blær Hinriksson skoraði þrjú mörk fyrir Leipzig en Franz Semper var markahæstur í liði Leipzig með sjö mörk. Leipzig vann á dögunum sinn fyrsta sigur í deildinni en liðið er á botni deildarinnar með fimm stig. Erlangen fór upp í 12.sæti deildarinnar með 13 stig. Í seinni leik dagsins hafði Eisenach betur gegn Göppingen 31-27 en liðið hafði þægilegt forskot í hálfleik, 16-9. Ýmir Örn Gíslason var ekki meðal markaskorara í liði Göppingen í dag en liðið er í 10. sæti deildarinnar með 15 stig á meðan Eisenach fór í þrettán stig með sigrinum. Felix Aellen var markahæstur í liði Eisenach með níu mörk úr níu skotum. Hjá Göppingen var vinstri skyttan, Oskar Neudeck markahæstur með sjö mörk.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.