Fabian Norsten (HENNING BAGGER / Ritzau Scanpix via AFP)
Svíar hafa aldrei verið á flæðiskeri staddir með markmenn og það er engin breyting þar á fyrir komandi Evrópumót. Handkastið fjallaði meðal annars um það að Michael Apelgren þjálfari Svía valdi ekki Tobias Thulin markvörð Pick Szeged í lokahóp sinn fyrir Evrópumótið. Það er nú ekki frásögufærandi nema fyrir þær sakir að Apelgren er þjálfari Thulin hjá Pick Szeged og því sennilega ekki auðveld ákvörðun landsliðsþjálfarans að skilja sinn mann í Ungverjalandi eftir. En þannig er nú bara staðan, Apelgren valdi þrjá markverði fyrir Evrópumótið og nú fjallar Johan Flinck handboltasérfræðingur, Aftonbladet í Svíþjóð um það að Fabian Norsten markvörður Álaborgar er orðinn þriðji markvörður sænska landsliðsins eftir að hafa verið fyrsti markvörður liðsins í verkefni síðasta verkefni liðsins í aðdraganda EM í nóvember. Michael Apelgren sagði í viðtali við Sportbladet í nóvember að Fabian Norsten væri nýr aðalmarkvörður sænska landsliðsins en Fabian Norsten er fæddur árið 2000 og því á topp aldri sem markvörður. Nú er staðan hinsvegar orðin önnur. Svíar hafa leikið tvo æfingaleiki gegn Brasilíu í vikunni og eftir þá er orðið ljóst að Norsten er skyndilega orðinn þriðji markvörður liðsins. Á undan honum eru Andreas Palicka markvörður Kolstad og Mikael Appelgren markvörður Veszprém. ,,Ég hef talað við Apelgren og það sem hefur verið sagt er að hér og nú er ég númer þrjú. Það er erfitt að orða þetta. Maður vill spila. Því miður erum við þrír sem viljum spila. Það er eins konar vonbrigði í því. En ég hef verið mjög skýr á því að ég mun taka að mér það hlutverk sem mér er gefið og vil leggja mitt af mörkum eins mikið og ég get,” sagði Norsten í viðtali við Sportbladet eftir seinni æfingaleik Svía gegn Brasilíu í vikunni. En þú varst númer eitt fyrir aðeins tveimur mánuðum síðan? ,,Það var þá en nú er það núna. Þannig lítur það út. Það er ekki hægt að taka neitt sem sjálfsögðum hlut. Ég verð að vinna í því.” Norsten fékk tækifæri í seinni hálfleik í seinni leiknum eftir að Andreas Palicka fékk boltann í höfuðið í upphafi seinni hálfleiks og kom ekkert meira við sögu. ,,Það var gaman að geta gert eitthvað gott úr þessu. Ég er svolítið stoltur af því. Þetta var sérstök staða,” sagði Norsten sem hafði ekki gert ráð fyrir því að spila í leiknum og var illa undirbúinn og lítið hitað upp fyrir innkomuna. Michael Apelgren byrjaði í markinu í báðum æfingaleikjunum gegn Brasilíu. Appelgren þjálfari Svía var spurður að því hvort Appelgren væri orðinn númer eitt og Palicka númer tvö? ,,Þetta lítur út fyrir það eftir þessa tvo leiki. En við sjáum til, við höfum þá hugmynd að það sé ekki alveg ákveðið. Þið getið velt því fyrir ykkur,” sagði landsliðsþjálfarinn og brosti.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.