Færeyjar - Elias Ellefsen a Skipagotu (Piotr Matusewicz / DPPI via AFP)
Færeyingar unnu Ítalíu með fjögurra marka mun 38-34 í síðari æfingaleik þjóðanna í Færeyjum í gærkvöldi fyrir framan þrjú þúsund áhorfendur í þjóðarhöllinni við Tjarnir í Þórshöfn í gær. Um var að ræða annan æfingaleik þjóðanna um helgina en Ítalía hafði betur í fyrri leiknum 36-34. Stærstu tíðindi helgarinnar eru hinsvegar þau að Elias Ellefsen á Skipagøtu leikmaður Kiel í þýsku úrvalsdeildinni lék hvorugan leikinn vegna meiðsla sem hann hlaut fyrir áramót. Elias var ekki í leikmannahópi þýska liðsins í þýsku úrvalsdeildinni er liðið mætti Magdeburg í toppslag deildarinnar fyrir áramót en hann meiddist á öxl í leik gegn Hannover- Burgdorf fyrir jól. Mikil óvissa ríkir yfir þátttöku Eliasar í fyrsta leik Færeyja á Evrópumótinu sem fram fer á föstudaginn er Færeyjar mæta Sviss. Færeyjar eru í riðli með Sviss, Slóveníu og Svartfjallalandi en sá riðill er að mörgum talinn jafnasti riðill mótsins. Er því mikið í húfi fyrir Færeyinga í leiknum gegn Sviss í 1.umferðinni og það yrði mikið áfall fyrir þessa litlu þjóð ef þeirra langbesti leikmaður getur ekki spilað í leiknum gegn Sviss.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.