Guðjón Valur Sigurðsson ((Tom Weller / dpa Picture-Alliance via AFP)
Þýska úrvalsdeildarliðið Gummersbach tilkynnti í morgun að félagið hafi keypt Garðar Inga Sindrason leikmann FH og gengur hann í raðir félagsins næsta sumar. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach en með liðinu leika Teitur Örn Einarsson og Elliði Snær Viðarsson. Þá tilkynnti Gummersbach að félagið væri komið í samstarf við FH. ,,Auk félagaskiptanna ræddum við að félögin vinni nánar saman á næstu árum, varðandi heimsóknir, þjálfun og hugsanlega einnig komu ungra hæfileikaríkra leikmanna,“ segir Schindler framkvæmdastjóri Gummersbach á heimasíðu sinni. Handkastið greindi frá því á dögunum að Brynjar Narfi Arndal yngsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi væri undir smásjá Gummersbach. ,,Ég er mjög ánægður með að okkur hafi tekist að sannfæra annan mjög hæfileikaríkan leikmann um að ganga til liðs við okkur hjá VfL Gummersbach. Ég vil einnig þakka Aroni og stuðning hans við að láta þessi félagaskipti verða að veruleika,“ en hann á við Aron Pálmarsosn frænda Garðars Inga sem hefur séð um mál Garðars Inga síðustu vikur. Á dögunum var tilkynnt að einn efnilegasti leikmaður Svía, Nikola Roganovic gangi í raðir Gummersbach næsta sumar frá Malmö. Nikola er í sænska landsliðshópnum fyrir Evrópumótið. „Gassi (Garðar Ingi) er ennþá mjög ungur og einn hæfileikaríkasti leikmaður Íslands. Hann mun örugglega þurfa tíma,“ segir Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari Gummersbach. „Við verðum að þróa hann vel því munurinn frá því að spila á Íslandi og í Þýskalandi er nokkuð stór, en auðvitað bindum við miklar vonir við hann í framtíðinni og erum mjög ánægð með þessi félagaskipti.“ „Gummersbach er eitt besta félagið í Þýskalandi. Það var mikill heiður þegar þeir höfðu samband við mig. Þeir hafa Guðjón Val Sigurðsson sem þjálfara, hafa mikinn metnað og frábæra stuðningsmenn. Ég er mjög spenntur að verða brátt hluti af þessu frábæra félagi,” sagði Garðar Ingi Sindrason við heimasíðu Gummersbach.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.