Kiril Lazarov (Anne-Christine POUJOULAT / AFP)
Norður-Makedónía undir stjórn Kiril Lazarov náðu heldur betur í óvænt stig gegn Portúgal í 2.umferð riðlakeppni Evrópumótsins er liðin gerðu jafntefli 29-29. Úrslitin komu gegn sterku portúgölsku liði sem fyrirfram voru taldir sigurstranglegra liðið fyrir leikinn og margir töldu geta gert góða hluti á mótinu. Það var því mikil ánægja í herbúðum Norður-Makedóníu eftir leikinn. Norður Makedónía tapaði fyrsta leik sínum gegn Danmörku og mæta Rúmeníu í lokaleiknum. Markatala gæti skilið á milli Norður-Makedóníu og Portúgal er upp er staðið en Portúgal vann Rúmeníu í fyrstu umferðinni og mætir Danmörku í síðustu umferðinni. Jafntefli eða sigur Portúgal gegn Danmörku í lokaumferðinni gulltryggir Portúgal áfram í milliriðil. Landsliðsþjálfarinn Kiril Lazarov var greinilega stoltur af frammistöðu leikmannanna og lagði áherslu á hversu glæsileg frammistaðan var gegn svo sterkum andstæðingi. ,,Ég vil óska leikmönnum mínum til hamingju, þeir stóðu sig frábærlega í dag. Þeir eiga skilið… ég veit ekki hvað. Við vorum að spila gegn landsliði sem fór í undanúrslit frá síðasta HM, Portúgal, og þeir eru komnir hingað til að vinna verðlaun, kannski gullverðlaun. Við erum mjög ánægðir,“ sagði hann við vefsíðu EHF.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.