
Ómar Ingi Magnússon (JOHAN NILSSON / TT News Agency via AFP)
Ómar Ingi Magnússon var svekktur með fyrri hálfleik íslenska liðsins á föstudaginn gegn Króötum þegar Handkastið hitti hann í Malmö í gær. Varnarleikur Íslands hefur verið mikið í umræðunni sérstaklega í fyrri hálfleik í gær þar sem liðið fékk á sig 19 mörk. ,,Fyrri hálfleikurinn var of dýr og alltof mikið að fá á sig 19 mörk er of mikið og svo er erfitt að elta lið eins og Króatíu" sagði Ómar Ingi í samtali við Handkastið. Ómar Ingi segir að stærð Króata sérstaklega varnarlega henti Íslandi kannski ekki fullkomlega þar sem þeir taka mikið pláss og íslenska liðið hafi þurft að breyta sínum sóknarleik örlítið þess vegna sem mögulega hafi ekki hentað liðinu fullkomlega í leiknum á föstudaginn. Ómari fannst planið í leiknum vera gott og ganga vel, sérstaklega sóknarlega. Hann segir liðið hefði eflaust getað framkvæmt það örlítið betur en mestmegnis var það gott. ,,Það er auðvelt að segja eftir á hvort við ættum að hafa fleiri útfærslur af sóknarleiknum en mér og liðinu vel held ég bara þokkalega allan tímann." Mikið hefur verið kallað eftir því af sérfræðingum að Ómar taki meira til sín í sóknarleik landsliðsins og taki meira á skarið. ,,Þegar við töpum þá erum við ekki að gera nóg og það á við alla í liðinu þannig að gegn Króatíu var þetta ekki nóg og ég veit að allir í liðinu líti inn á við og vilji bæta sig og þannig hugsa ég þetta líka." Ómar segist hreinlega ekki vita hvort Svíarnir henti honum betur sóknarlega og segi að það verði bara að koma í ljós á eftir en tekur undir að þeir spili líkari handbolta og við séum vanir að gera. ,,Við munum stilla okkur inn og erum þannig stilltir að þetta sé leikur sem við þurfum góð úrslit úr upp á framhaldið."

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.