Brest og Györ svörðu fyrir sig – Esbjerg og Metz náðu að sýna styrk sinn
{{brizy_dc_image_alt entityId=

Brest (BBH - Olivier Stephan)

11.umferð Meistaradeildar kvenna kláraðist um helgina þar sem stórliðin sendu frá sér skýr skilaboð eftir óvænt töp í síðustu umferð. Brest og Györ sneru aftur á sigurbraut, Esbjerg og Metz sýndu yfirburði sína og FTC og CSM héldu áfram að safna stigum í B-riðli. Dortmund og Ikast tóku jafnframt stór skref í átt að úrslitakeppni.

Úrslit helgarinnar

A-riðill

Storhamar - Dortmund 30-31 (11-19)
Markahæstar: Veronika Malá 6/6 (Storhamar), Alina Grijseels 7/9 (Dortmund)
Dortmund náði afar mikilvægum útisigri í Noregi í leik sem réðist í raun í fyrri hálfleik. Eftir jafna byrjun fór þýska liðið í 4:0 kafla og bætti síðan enn í undir lok fyrri hálfleiks með 7:2 spretti sem tryggði átta marka forskot í hlé.
Storhamar tókst að minnka muninn jafnt og þétt í síðari hálfleik og var aðeins marki frá því að jafna í lokin, en slakur fyrri hálfleikur reyndist of dýrkeyptur. Sigurinn styrkir stöðu Dortmund í baráttunni um sæti í úrslitakeppni.

Esbjerg - DVSC 39-30 (21-12)
Markahæstar: Henny Reistad 7/11 (Esbjerg), Jovana Jovovic 8/12 (DVSC)
Esbjerg hélt áfram sterkri sigurgöngu sinni með sannfærandi heimasigri. Leikurinn var jafn framan af, en þegar Katharina Filter fór að loka markinu tók danska liðið öll völd. Esbjerg fór með níu marka forskot í hálfleik og hélt DVSC í hæfilegri fjarlægð allan síðari hálfleikinn.
Þrátt fyrir ágæta sóknarkafla hjá gestunum var sigur Esbjerg aldrei í hættu. Henny Reistad var á ný markahæst og liðið situr nú öruggt í efri hluta riðilsins.

Buducnost - Metz 23-39 (12-22)
Markahæstar: Tyra Axnér 8/8, Anna Albek 8/10 (Metz)
Metz sýndi algjöra yfirburði í Podgorica og vann stærsta sigur umferðarinnar í A-riðli. Eftir jafna byrjun herti franska liðið varnarleik sinn og fór að refsa Buducnost miskunnarlaust fyrir hvert mistök.
Metz var með tíu marka forskot í hálfleik og hélt áfram af fullum krafti í síðari hálfleik. Skotnýting liðsins var til fyrirmyndar og markvarslan traust. Sigurinn var sá níundi hjá Metz í keppninni og þær gáfu skýr skilaboð um að þær ætla sér að ná þeim stóra í vor.

Gloria Bistrita - Györ 22-27 (12-11)
Markahæstar: Matilda Sofia Forsberg 6/7 (Bistrita), Dione Housheer 8/10 (Györ)
Györ svaraði fyrir óvænt tap í síðustu umferð með sterkum sigri í Rúmeníu, þó fyrri hálfleikurinn hafi verið þeim erfiður. Bistrita leiddi lengi vel, þar sem munaði mest um frábæra markvörslu Renötu de Arruda, og Györ átti óvenju erfitt með að finna takt í sókninni.
Í síðari hálfleik breyttist allt. Hatadou Sako lokaði markinu, Györ fór í 6:0 kafla og tók leikinn yfir. Kristina Jørgensen og Dione Housheer leiddu sóknina og sigurinn var tryggður með sterkum síðari hálfleik.

B-riðill

FTC - Krim 38-31 (17-16)
Markahæstar: Katrin Klujber 7/8 (FTC), Ana Abina 7/14 (Krim)
FTC hélt áfram að sækja stig af miklum krafti. Eftir jafnan fyrri hálfleik sprakk leikurinn upp í seinni hálfleik þegar FTC fór í 7:1 kafla og náði afgerandi forskoti.
Varnarleikurinn þéttist, Blanka Böde-Bíró kom sterk inn í marki og Katrin Klujber stýrði sókninni af öryggi. FTC er nú komið í annað sæti riðilsins.

Brest - Odense 40-33 (23-17)
Markahæstar: Clarisse Mairot 8/10 (Brest), Helene Fauske 7/8 og Elma Halilcevic 7/9 (Odense)
Brest var staðráðið í að svara fyrir tap í síðustu umferð og lét það ekki dragast. Clarisse Mairot fór á kostum í upphafi og heimaliðið byggði upp þægilegt forskot fyrir hálfleikinn.
Odense reyndi að halda í við Brest í síðari hálfleik, en breidd og hraði heimaliðsins reyndist of mikið. Brest náði 40 mörkum og styrkti stöðu sína á toppi riðilsins í leik sem staðfesti gæði liðsins.

Podravka - CSM Búkaresti 28-33 (8-14)
Markahæstar: Matea Pletikosic 8/13 (Podravka), Elizabeth Omoregie 7/11 (CSM)
CSM hélt sigurgöngu sinni áfram með traustum útisigri í Króatíu. Eftir jafna byrjun tók rúmenska liðið yfir, þökk sé frábærri markvörslu Evelinu Eriksson, og fór með sex marka forskot í hálfleik.
Podravka náði betri tökum á leiknum í síðari hálfleik og minnkaði muninn, en CSM hélt ró sinni og tryggði fimmta sigur sinn í röð undir stjórn nýs þjálfara.

Ikast - Sola 32-23 (15-11)
Markahæstar: Julie Scaglione 6/12, Cecilie Højgaard Brandt 6/7, Stine Skogrand 6/6 (Ikast), Pia Grønstad 5/6 (Sola)
Ikast náði öruggum sigri í norrænum slag. Sola hélt vel í við heimaliðið framan af, en þegar Filippa Idéhn fór að loka markinu sprakk leikurinn upp. Ikast fór í 5:0 kafla undir lok fyrri hálfleiks og hélt síðan dampi allan leikinn.
Í síðari hálfleik jókst munurinn jafnt og þétt og Idéhn setti punktinn yfir i-ið með marki úr eigin marki undir lokin.

Nýjustu fréttir

{{brizy_dc_image_alt imageSrc=

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top