Danni Matt í KA frá FH

Daníel Matthíasson

Línumaðurinn, Daníel Matthíasson gekk í raðir KA frá FH í dag. Þetta tilkynnti KA á heimasíðu sinni nú rétt í þessu. Daníel þar með kominn heim á nýjan leik eftir nokkurra ára veru hjá FH þar sem hann varð meðal annars Íslandsmeistari vorið 2024.

,,Danni lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með sameiginlegu liði Akureyrar Handboltafélags árið 2012 en gekk í raðir FH árið 2014. Hann sneri aftur heim í KA árið 2018 þar sem hann myndaði magnað varnarteymi með Daða Jónssyni en Daði skrifaði undir nýjan samning á dögunum og verður ansi spennandi að sjá þá félaga aftur í hjarta KA varnarinnar. Hann hélt af stað suður eftir farsæl ár með KA liðinu og hóf í kjölfarið að leika með FH veturinn 2022-2023 og varð hann Íslandsmeistari með liðinu árið 2024," segir í tilkynningu frá KA.

Daníel er annar leikmaðurinn sem gengur í raðir KA á stuttum tíma en Leó Friðriksson var kynntur til félagsins frá Þór en Leó líkt og Daníel er uppalinn í KA.

KA endaði í 9.sæti Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð og þjálfarabreytingar hafa orðið á liðinu. Andri Snær Stefánsson tók við KA liðinu af Halldóri Stefáni Haraldssyni sem var sagt upp störfum eftir síðustu leiktíð. Andri Snær var aðstoðarþjálfari KA á síðustu leiktíð.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top