Framtíð Ísaks Rafns í óvissu
(Eyjólfur Garðarsson)

Ísak Rafnsson í leik með ÍBV ((Eyjólfur Garðarsson)

Óvissa ríkir um framtíð handknattleiksmannsins Ísak Rafnssonar hjá ÍBV þar sem samningur hans við félagið er runninn út.

Ísak sem verður 33 ára á árinu er uppalinn í FH og lék þar upp alla yngri flokka félagsins. Hann lék með meistaraflokki félagsins til ársins 2018 þegar hann samdi við aust­ur­ríska félagið Schwaz. Hann lék með Schwaz eitt tímabil þar til hann snéri aftur heim í FH.

Hann lék með FH þar til hann færði sig um set til ÍBV sumarið 2022 og hefur leikið með Eyjamönnum undanfarin ár og varð Íslandsmeistari með liðinu 2023 eftir sigur á Haukum í úrslitaeinvíginu í oddaleik.

Hann hefur leikið lykilhlutverk í varnarleik ÍBV síðustu ár en missti af stórum hluta af síðasta tímabili vegna meiðsla.

Ljóst er að mikið er af breytingum í herbúðum ÍBV frá síðasta tímabili. Liðið hefur fengið Daníel Þór Ingason frá Balingen og Jakob Inga Stefánsson úr Gróttu en á sama tíma hafa lykilmenn horfið á braut og enn fleiri leikmenn samningslausir.

Fyrr í dag greindum við frá því að Kári Kristján Kristjánsson væri samningslaus. Þá eru Nökkvi Snær Óðinsson, Breki Þór Óðinsson og Gabríel Martinez samningslausir. Samkvæmt heimildum Handkastsins hefur Dagur Arnarsson framlengt samning sinn við ÍBV.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top