Kári Kristján Kristjánsson (Eyjólfur Garðarsson)
Línumaður ÍBV til margra ára og fyrrum landsliðsmaðurinn, Kári Kristján Kristjánsson er samningslaus eftir að samningur hans við ÍBV rann út fyrr í sumar. Kári Kristján lék einungis einn leik með ÍBV eftir áramót vegna veikinda sem hann varð fyrir í upphafi árs. Kári gekkst undir hjartaþræðingu. Aðgerðin var illnauðsynleg varúðarráðstöfun þar sem Kári var komin með mikla hjartabólgu á þeim tíma. Læknar meinuðu Kára aðgang á handboltavöllinn fram að sumri. Kári er hinsvegar allur að braggast og hyggst ætla spila handbolta á næsta tímabili. En hvar það verður er síðan stóra spurningin. ,,Það er nú yfirleitt þannig að þegar fjölmiðlasamsteypan hringir þá fá þeir yfirleitt alltaf eitthvað fyrir peninginn," sagði Kári Kristján í samtali við Handkastið er hann var spurður út í framhaldið hjá sér á sínum ferli. ,,Einhverju hluta vegna þá hófust samningaviðræðum um framhaldið hjá mér mjög seint og hafa dregist mjög mikið. Staðan er þannig að mér skilst að þetta liggi hjá aðalstjórn ÍBV. Ég skil það þannig að ég og handknattleiksdeildin höfum komist að samkomulagi en síðan er einhver villa í kerfinu," sagði Kári sem verður 41 árs á árinu. ,,Eins og ég segi, tímapunkturinn er ekkert sérstakur. Maður er eiginlega ekki með nein svör varðandi það hvað mun koma útúr þessu." Eins og fyrr segir, þá lék Kári einungis einn leik með ÍBV eftir áramót vegna veikindanna. Hann segist vera á góðum stað í dag og langi alls ekki að hætta á þessum forsendum. Í fyrra greindi ÍBV frá því að Kári hafi samið við félagið til eins árs og var þá talað um að síðasta tímabil yrði hans síðasta. Veikindin hafi þó breytt plönum Kára Kristjáns. ,,Mig langar ekki að hætta í handbolta á þessum forsendum að hafa orðið veikur í febrúar og búið. Það sem ég vill gera er að klára síðustu mínúturnar á parketinu á góðu nótunum. Ef það verður þannig að ég og ÍBV náum ekki saman þá verður maður að kíkja í kringum sig, það er ekkert leyndarmál. Það er alveg möguleiki að ég spili annarsstaðar en í ÍBV á næsta tímabili," sagði Kári sem er greinilega hungraður í að spila annað tímabil. En hvað ætli valdi því að samningar séu ekki í höfn? ,,Ég veit ekki hvar þetta stendur. Eftir samtal mitt við Erling seinni partinn í maí þá vill hann halda mér og sér mig fyrir sér í ákveðnum hlutverkum innan liðsins. Upplifunin hjá manni er frekar skrítin, að þjálfarinn vilji halda mér en ekkert gerist hinsvegar í samningaviðræðunum. Á meðan tíminn líður og ekkert gerist þá að sjálfsögðu lít ég í kringum mig." sagði Kári Kristján að lokum sem vonast til að sín máli klárist sem fyrst svo hann geti farið að einbeita sér að handboltanum og tímabilinu sem framundan er. Það verður fróðlegt að sjá hvar Kári Kristján endar en Kári hefur leikið með ÍBV frá árinu 2015. Kári kom heim eftir farsælan atvinnumanna feril fyrir tímabilið 2014 er hann gekk í raðir Vals. Á þeim tíma var hann langt kominn með að semja við sitt uppeldisfélag ÍBV en þá strönduðu samningaviðræður hans og ÍBV þegar þær voru langt komnar. Kári lét óánægju sína í garð ÍBV í ljós í viðtali við Vísi á sínum tíma: ,,Viðræðurnar við ÍBV voru komnar á það stig að flugstjórinn var búinn að tilkynna að vélinni yrði lent eftir korter. Þá kom stopp í viðræðurnar sem mér fannst furðulegt, enda voru menn búnir að sættast á stoðir samningsins og í raun bara fínpússning eftir. Ég skildi ekki hvað var eiginlega í gangi og hafði því samband við þá aftur. Þá er mér tilkynnt að þetta gangi ekki upp,“ sagði Kári í samtali við Vísi á sínum tíma.Vill klára síðustu mínúturnar á góðu nótunum
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.