FH-ingar leita enn arftaka Jóhannesar Berg
(Egill Bjarni Friðjónsson)

Hver leysir Jóhannes Berg af í FH? ((Egill Bjarni Friðjónsson)

Deildarmeistarar FH leita enn arftaka Jóhannesar Berg Andrasonar í hægri skyttustöðuna en Jóhannes gekk í raðir Tvis Holstebro í sumar. Jóhannes Berg hefur verið lykilmaður í hægri skyttustöðu FH-inga undanfarin tímabil og skilur stórt skarð eftir sig.

Samkvæmt heimildum Handkastsins hafa FH-ingar hlerað sinn fyrrum liðsmann, Einar Rafn Eiðsson sem er samningslaus eftir að samningur hans við KA rann út fyrr í sumar. Eins og Handkastið greindi frá á dögunum gekk Einar Rafn undir aðgerð á mjöðm í júní mánuði og verður frá keppni í allt að sex mánuði.

Samkvæmt sömu heimildum gerir Einar Rafn fastlega ráð fyrir því að búa enn fyrir norðan en FH-ingar hafa boðið Einari uppá það að spila einungis með liðinu eftir að hann hefur jafnað sig eftir aðgerðina.

Samkvæmt heimildum Handkastsins reyndu FH-ingar að kaupa unglingalandsliðsmanninn og hægri skyttu FH, Ágúst Guðmundsson fyrr í sumar en HK-ingar voru ekki tilbúnir að taka þátt í þeim dansi.

Þá var Kjartan Þór Júlíusson leikmaður Fram langt kominn í samningaviðræðum við FH áður en hann bakkaði úr þeim viðræðum og endursamdi við sitt uppeldisfélag, Fram sem eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar.

Handkastið greindi einnig frá því um helgina að Birkir Benediktsson væri á heimleið eftir ársdvöl í Japan. Sigursteinn Arndal þjálfari FH hefur sennilega leitað eftir símanúmeri Birkis í símaskránni.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top