Slæmar fréttir fyrir Selfyssinga ((Sigurður Ástgeirsson)
Óvíst er hvort að varnarmaðurinn og reynsluboltinn hjá nýliðum Selfyssinga, Sverrir Pálsson spili með liðinu í Olís-deildinni á komandi tímabili. Þetta staðfesti Carlos Martin Santos þjálfari Selfoss í samtali við Handkastið. Sverrir er á leið í aðgerð í sumar á öxl en þau meiðsli hafa plagað hann að undanförnu. Óvíst er hvenær hann verður leikfær á nýjan leik eftir aðgerðina. Í ofan á lag, er Sverrir samningslaus og er óvíst hvort Sverrir taki slaginn með Selfyssingum eftir aðgerðina. Carlos þjálfari Selfyssinga sagði að samtalið yrði tekið eftir aðgerðina um framhaldið. Sama hvernig það samtal fer er nokkuð ljóst að Sverrir verður ekki með nýliðum Selfoss í upphafi tímabils í Olís-deildinni. Er þetta mikið reiðarslag fyrir Selfyssinga sem hafa átt í erfiðleikum með að styrkja sig fyrir komandi tímabil. Þeir hafa ekki enn fengið inn nýjan leikmann í leikmannahóp sinn en hafa misst lykilmenn frá sér. Jón Þórarinn markvörður gekk í raðir deildarmeistara FH og þá er hægri hornamaðurinn, Guðjón Baldur Ómarsson að flytja erlendis og leikur því ekki með Selfyssingum í vetur.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.