Ingvar Heiðmann Birgisson (Heimasíða KA
Það kom sennilega mörgum og jafnvel öllum á óvart þegar KA tilkynnti nýjan leikmann í herbúðum liðsins síðasta mánuði, er línumaðurinn Ingvar Heiðmann Birgisson uppalinn KA maður sneri til baka í handboltann eftir níu ára pásu. Ingvar Heiðmann lék síðast með liði ÍR í efstu deild tímabilið 2015/2016 en snýr nú til baka með uppeldisfélagi sínu í deild þeirra bestu. ,,Það hefur verið einhver aðdrangandi fyrir þessu öllu saman, í nokkur ár meiri segja," sagði Ingvar í samtali við Handkastið sem lék mikla forvitni á að vita hvernig þetta kemur til. ,,Ég hætti í ÍR sumar 2016 en það kom svosem aldrei fram en ég hætti vegna þess að ég fékk tvö höfuðhögg með stuttu millibili og ég tók þá ákvörðun að taka enga sénsa í handboltanum. Ég var á þeim tíma að stunda Cross-fit, bara sem líkamsrækt en setti á þeim tíma allan fókus á Cross-fit," sagði Ingvar sem fór meiri segja á heimsleikana í Cross-fit sumarið 2017. Eins flutti hann til Luxembúrg og var þar að reka Cross-fit stöð og þjálfa Cross-fit. ,,Þegar ég kom aftur heim 2019 var ég ekki alveg að finna taktinn í Cross-fitinu og það togaði alltaf smá í mig að byrja aftur í handboltanum en ég tók aldrei stóra skrefið að láta á það reyna. Ég fór á æfingu hjá Val og Kríu í kringum 2020 en það gekk ekki upp þar sem ég var nýbúinn í axlaraðgerð og var ekki orðinn nægilega góður á þeim meiðslum." Ingvar flutti síðan heim á Akureyri ásamt fjölskyldu sinni fyrir þremur árum. Á þeim tíma segir Ingvar að engin plön hafi verið að byrja aftur í handboltanum. ,,Ég hafði fylgst vel með öllu sem var að gerast. En það er nú bara stundum þannig að þegar þú ert með einhverja hugmynd í hausnum á þér, þó hún sé fjarlægð á þeim tíma þá á einhverjum réttum tímapunkti og við réttar aðstæður þá breytist eitthvað. Þannig atvikaðist þetta eiginlega núna," sagði Ingvar sem segir að nýráðinn þjálfari KA, Andri Snær Stefánsson hafði haft samband við sig í sumar og þá hafi boltinn farið að rúlla. Ingvar mætti á eina æfingu með KA liðinu áður en liðið fór í sumarfrí. ,,Ég er í frábæru líkamlegu standi en ég geri mér grein fyrir því að það mun taka mig smá tíma að koma mér í handboltaform, þar sem það er allt öðruvísi hreyfingar og öðruvísi álag," sagði Ingvar en hvert verður hans hlutverk í KA liðinu á næsta tímabili? ,,Hlutverk mitt í liðinu og hjá félaginu er margþætt og snýst eiginlega ekkert um sjálfan mig. Ég vill leggja mitt á mörkum að koma með gott hugarfar inn í starfið í KA, bæði fyrir liðið og fyrir samfélagið. Eldri tveir drengirnir mínir eru að stíga sín fyrstu skref á íþróttaferlinum og ég vil vera fyrirmynd fyrir þá og stuðla að jákvæðri ímynd fyrir unga drengi og unga karlmenn. Ef ég get lagt mitt á mörkum þá ætla ég að gera það. Það er algjör bónus að geta gert það fyrir uppeldisfélagið. Ég tek hlutverkinu fagnandi, ég hef margt fram að færa varðandi æfingar og hugarfar." ,,Eins snýst þetta líka um að styrkja hópinn og reyna fá inn eins mikla breidd og við getum. Það skemmir síðan ekki fyrir að maður er uppalinn KA-maður og ég mun gera mitt allra besta til að styðja við liðið á hvaða hátt sem er." ,,Ég geri mér grein fyrir því að ég hef ekki spilað í langan tíma og ég treysti Andra Snæ til þess að velja leikmannahópinn og hann ákveður það hvort ég sé að fara spila og þá hversu mikið. " Burt séð frá því að Ingvar sé í góðu líkamlegu formi þá viðurkennir hann að veikindi hjá yngsta stráknum sínum hafi ýtt undir að hann hafi tekið þá ákvörðun að taka slaginn með KA. Hann segir að að síðustu mánuðir hafi verið virkilega erfiðir og krefjandi hjá sér og fjölskyldunni. ,,Ég á einn lítinn ungan strák, algjöra hetju sem er langveikur og er nýbúinn í lifrarígræðslu þegar hann var sex mánaða sem var heljarinnar prógram. Hann hefur breytt mínu lífshugarfari til frambúðar og það spilar inn í þessa ákvörðun. En á sama tíma gerir það, það að verkum að ég er ekki fær til þess að mæta á allar æfingar og það er fullur skilningur fyrir því, bæði hjá þjálfarateyminu og leikmönnum liðsins. Ég mun sinna því hlutverki sem mér verður gefið eins vel og ég get," sagði Ingvar Heiðmann að lokum í samtali við Handkastið.Alltaf togað í mig að byrja aftur
Vill leggja sitt á mörkum með góðu hugarfari
Litla hetjan breytt lífshugarfari til frambúðar
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.